Friday, February 21, 2014

Menningarsjokk

Samkvæmt internetinu er ég að upplifa menningarsjokk. Ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en ég fór að lesa um algeng einkenni menningarsjokks. Ég hélt að menningarsjokk væri sjokk. Svo virðist ekki vera, það er meira svona eins og þjóðerniskennd sem læðist upp að þér.

Eina sem ég hef hugsað um síðustu vikur er hvað Ísland er æðislegt. Flestar setningar hjá mér byrja á "in Iceland...". Ég fæ stundum ógeð á að hlusta á sjálfa mig, hversu mikið ég tala um Ísland og kosti þess. Ég á erfitt með að muna yfir hverju ég var að kvarta meðan ég bjó á Íslandi.

Það er allt svo mikið vesen hérna. Og þegar ég kvarta yfir því, líður mér eins og ofdekruðum ungling sem hefur aldrei þurft að hafa fyrir neinu í lífinu.

Ég fór á pósthúsið um daginn. Ég bað um umslag. Það var ekki til umslag. Ég hreytti út úr mér "but it's a fucking post office!" og strunsaði út í bræði minni.

Málið er að það er allt svo handahófskennt hérna. Það er ekkert nema heppni ef að eitthvað gengur upp.

Ég skráði mig í námskeið í túnískri arabísku í málaskóla sem hefur gott orð á sér á internetinu. Ég mætti fyrsta daginn, konan á skrifstofunni tjáir mér það að það sé ekki tími þann dag vegna starfsmannafundar. Ég hugsaði með mér hvers vegna gat hún ekki sagt mér það bara daginn áður þegar ég mætti til þess að skrá mig. Hún segir mér að koma daginn eftir. Ég mætti daginn eftir og hún tjáir mér það að það sé ekki tími vegna starfsmannafundar, ég ætti að koma daginn eftir. Ég varð orðin svolítið pirruð en ákvað að láta þetta ekki á mig fá. Loks þriðja daginn mætti ég og það var tími. Konan á skrifstofunni hafði sagt mér að námskeiðið væri fyrir byrjendur og að námskeiðið hafi byrjað þessa sömu viku, svo ég hafði bara misst úr einn tíma. Tíminn byrjar og kennarinn byrjar að tala. Ég skil ekki neitt og sit örugg um að enginn skilji neitt. Nemendurnir byrja að tala, á reiprennandi túnísku. Ég sit ein með opin munninn og líður eins og ég gæti verið pínulítið eftir á. Ég segi kennaranum að ég skilji ekki neitt. Hún segir mér að það sé eðlilegt. Hún byrjar að skrifa á töfluna orð, ég hugsa með mér ég get alla vega glósað orðin sem að hún skrifar. Í túnísku þá nota þau bæði arabískt letur og latneskt letur, í minni eigin lógík hafði ég ímyndað mér að í tíma fyrir byrjendur væri notað latneskt letur. Nei, kennarinn notaði arabískt letur, svo það var ómögulegt fyrir mig að glósa orðin sem hún skrifaði á töfluna, öllum öðrum tókst samt að glósa á einhvern furðulegan hátt. Kennarinn fór aðeins út úr tímanum, ég spurði strákinn við hliðina á mér hvort að ég væri ekki örugglega á réttum stað, hann segir mér það að þetta sé tími fyrir byrjendur en meirihluti nemendanna hafi lært klassíska arabísku áður í nokkur ár og þess vegna mun auðveldara fyrir þau að læra túníska arabísku. Kennarinn labbaði aftur inn í stofuna og ég segi við hana að ég skilji ekki neitt og að ég haldi að ég sé ekki á réttum stað auk þess skilji ég ekki arabískt letur, hún segir mér að skrifa bara orðin eins og ég heyri þau. Ég fann hvernig reykurinn úr eyrunum á mér fyllti út kennslustofuna. Ég gekk út eftir klukkutíma og fór á skrifstofuna til þess að kvarta. Ég segi við konuna á skrifstofunni að ég hafi ekkert að gera í þessum tíma og þetta sé ekki ásættanleg kennsluaðferð fyrir byrjendur, hún segir mér að þetta sé eina byrjendanámskeiðið. Ég gerði mér grein fyrir að annað hvort þurfti ég að labba út af skrifstofunni eða ég myndi sjá eftir því að hafa löðrungað konuna með kennslubókinni minni. Ég gekk út.

Nokkrum dögum seinna mætti ég aftur til þess að fá endurgreitt en konan tjáði mér það að það væri ekki hægt. Ég hafði skrifað undir samning þar sem stendur að ekki sé hægt að fá endurgreiðslu. Ég þakkaði henni fyrir kurteisislega og ætlaði að labba út af skrifstofunni, hún segir við mig þú hefðir átt að koma til mín strax og láta mig vita að þú værir ekki ánægð, við hefðum reynt að hjálpa þér. Ég brosti og labbaði út meðan ég ímyndaði mér hana vera að brenna í helvíti.

Ég gæti skrifað heila bók um dagleg svekkelsi og pirring á óáreiðanleika túnísks samfélags. Ég vorkenni sjálfri mér svo mikið og upplifi mig eina og misskilda. Svo geng ég um götur Túnisborgar þar sem mér líður eins og allir stari á mig með illkvittnum augum vegna þess að ég fór í aðeins of þröngan bol þennan morgun eða klæddi mig í litríkar buxur.

Þetta hefur orðið til þess að ég loka mig að mestu leyti af. Ég nenni ekki lengur að umgangast fólk og ég nenni ekki lengur að skilja neitt. Ég fæ kvíða við að þurfa að fara ein út í búð bara við tilhugsunina um hvernig fólk starir á mig og ef einhver skildi byrja að tala við mig og ég gæti ekki tjáð mig.

Ég hef líka orðið fyrir vonbrigðum með sjálfa mig. Ég skamma sjálfa mig daglega fyrir að vera ekki nógu frökk og kærulaus og láta vaða. Ég er ekki þessi Íslendingur sem fer í ókunnugt land og vill ekki upplifa menninguna. Ég er OPIN, ég SKIL aðra menningarheima. En það virðist ekki skipta máli.

Ég er nú vön því að ferðast og hafði ekki áhyggjur að ég myndi upplifa mikið menningarsjokk. Ég hef samt áttað mig á því að það er allt annað að vera í einhverju framandi landi sem túristi í nokkrar vikur, í nokkrar vikur getur maður umborið einhvern menningarmismun, fólk kemur líka vel fram við mann ef það veit að maður er túristi, allt er svo frábært. Hér er ég innfædd, ég lít út fyrir að vera innfædd og fæ því sama viðmót og innfæddir, nema ég get ekki varið mig, tjáð mig eða leitað réttar míns. Eins og allir Túnisbúar kannski. Og það gerir mig gjörsamlega úrvinda. Bara það að þurfa að taka metróinn í 10 mínútur tekur úr mér allra orku. Að þurfa að standa í þröngu rýmu með ókunnugu fólki í algjörri þögn meðan það starir á mann er algjör orkusuga.

Grát, grát. Já, greyið ég.

Ég hef nú samt ekki miklar áhyggjur af sjálfri mér. Ég geri mér grein fyrir að þetta er einungis hluti af því að vera útlendingur í nýju landi. Það tekur tíma að aðlagast og sætta sig við að maður hefur ekki sömu forréttindi hér og í sínu heimalandi. Ég er mjög þolinmóð og mjög þrautseig svo ég veit að ég mun halda þetta út. Ég veit að þessi stutti tími hér í Túnis mun gefa mér betri skilning á sjálfri mér og betra innsýn í það hvernig það er að vera innflytjandi. Allir þessu neikvæðu hlutir sem að ég upplifi verða jákvæðir í lengri tíma litið.

 - Nadia

Friday, February 7, 2014

O Grandmother Where Art Thou?

Þegar ég var 14 ára þá bjó systir mín í Frakklandi. Hún sendi mér í 14 ára afmælisgjöf geisladisk með Rachid Taha. Ég hafði aldrei hlustað á hann áður, tónlistin sem ég hlustaði á þessum tíma var eingöngu Hip Hop eða R&B, ekkert annað kom til greina. Rachid Taha er tónlistarmaður frá Alsír sem blandar saman mismunandi nýstárlegum tónlistarstefnum við hefðbundna Rai tónlist sem kemur frá Alsír. Ég man að ég hugsaði þegar ég leit á coverið á geisladisknum að systir mín gerði sér ekki grein fyrir því að ég væri hætt að hlusta á heimstónlist, ég var orðin of kúl fyrir þetta. Ég ákvað samt að prufa að hlusta á diskinn. Ég setti geisladiskinn í spilarann og ýtti á play. Ég man að ég sat á rúminu mínu þegar fyrsta lagið á disknum byrjaði, ég var búin að hlusta á lagið í u.þ.b. eina mínútu þegar ég byrjaði allt í einu að gráta. Ég upplifði einhverja óútskýranlegar tilfinningar í bland við sorg, söknuð og gleði þegar ég hlustaði á lagið.

Í gær gerði ég þriðju tilraun til þess að hitta ömmu mína. Ég vissi að í þetta skipti myndi það takast að hitta hana. Við fórum beint úr leigubílnum og löbbuðum að götunni hennar. Ég sá þrjár konur standa í götunni. Ég gat ekki séð nógu vel hvort að þær stæðu fyrir framan hús ömmu minnar eða lengra frá. Ég byrjaði að fá fiðring í magann og langaði helst að snúa við. Hvað á ég eiginlega að segja við hana? Kannski á hún bara eftir að biðja mig um pening. Ætli að hún fari að gráta? Eða ætli hún verði reið út í mig fyrir að hafa ekki heimsótt sig fyrr? Hugsaði ég með mér. Við nálguðumst konurnar og gat ég séð að þær stóðu fyrir utan hús ömmu minnar, ég vissi þá að hún hlyti að vera ein af þeim. Alaa kynnti sig fyrir þeim og spurði hvort að þær þekktu ömmu mína. Ég horfði á konurnar til skiptis. Ein þeirra var of ung til þess að vera amma mín, önnur líktist ekkert mér eða pabba mínum og sú þriðja var ég ekki viss um. Ég horfði betur á hana og sá glitta í augu pabba míns og þá vissi ég að þetta væri hún. Alaa sagði henni að ég væri barnabarnið hennar frá Íslandi. Konurnar tvær brostu til mín og byrjuðu að tala við mig meðan amma mín sat kyrr í stólnum sínum ráðvillt. Alaa tjáði konunum það að ég talaði ekki arabísku. Svo heyri ég ömmu mína segja hver? hvað? Alaa útskýrir fyrir henni aftur hver ég er og hún segir Nadia hver? Alaa segir nafn föður míns og þá fyrst kveikti hún á perunni. Hún sló í lærið á sér og sagði NADIA. Ég gekk til hennar og faðmaði hana. Hún spyr um bróður minn (bróðir minn er 3 ára) og ég sagði að hann væri á Íslandi. Hún segir við mig þú kemur núna þegar ég er orðin gömul og ljót, ég er mjög veik. Alaa bendir á aðra konuna sem var yngst af þeim þremur og segir Nadia þetta er systir pabba þíns. Ég labba að henni og faðma hana. Hún segir að þær voru á leiðinni heim til sín í hádegismat og bauð okkur með. Við löbbuðum af stað til þess að finna leigubíl, meðan við löbbuðum horfði ég á ömmu mína. Hún var klædd í sítt pils, peysu og með slæðu um höfuðið. Hún kjagaði meðan hún gekk og var þung á svipinn. Hvar er bróðir þinn? Spurði hún mig aftur. Ég sagði henni að hann væri á Íslandi og bætti við að hann væri mjög líkur henni. Hún sagði já hann er mjög líkur pabba þínum, hann er með augun hans og þessar þykku hendur. Ég kinkaði kolli. Ég er mjög veik sagði hún við mig, augun mín eru farin að bila og svo er ég með sykursýki. Við stoppuðum til þess að finna leigubíl í götunni. Ég stóðst ekki mátið og faðmaði ömmu aftur, hún var eitthvað svo vesæl, ég hugsaði kannski að hún hafi gott af því að fá faðmlag. Hún hélt mér fast að sér og sagði nafnið mitt. Við slepptum takinu og stóðum í þögn við umferðargötu. Ég leit á hana aftur og sá ég að hún felldi tvö tár og muldraði eitthvað með sjálfri sér.

Við fórum með leigubílnum í annað hverfi heim til frænku minnar. Við komum inn í mjög litla íbúð. Hún sagði mér að hún býr þarna með fyrrverandi eiginmanni sínum, dóttur sinni, syni sínum, konunni hans og barni. Ég sá strax að frænka mín er einnig mjög fátæk. Hún spurði okkur í sífellu hvort að við værum svöng og hvað við vildum. Ég þakkaði henni fyrir en sagðist ekki vera svöng. Hún spurði mig hvort ég vildi kaffi eða djús, ég svaraði djús og spurði hún svo Alaa hvernig sígarettur hann vildi (ég get auðvitað ekki reykt fyrir framan þær). Hún sendi tengdadóttur sína út í búð til að kaupa djús, sígarettur og fleira. Mér þótti þetta heldur óþægilegt þar sem ég vissi að þau eiga mjög lítinn pening. En svona virkar gestrisnin hérna og ef maður þiggur ekki þá er maður dónalegur. Frænka mín og Alaa spjalla saman. Meðan situr amma mín og reykir. Hún virðist ekki alveg vera á staðnum eins og hún sé mjög djúpt hugsi. Frænka mín segir Alaa að amma mín er með Alzheimer. Hún bætir við að hún hafi oft reynt að sannfæra hana um að búa hjá sér en amma mín neitar, hún vill búa ein með köttunum sínum. Frænka mín segir að hún gerir víst skandala af og til en það er sjúkdómurinn sem spilar þar inn í. Ég spyr ömmu mína hvað hún er gömul, hún glottir til mín og segir síðan að hún er 67 ára. Þú hefðir átt að sjá mig þegar ég var ung, sagði hún, ég var stórglæsileg kona sem gekk í háhæluðum skóm. Alaa og frænka mín héldu áfram að spjalla, ég sat þögul og horfði á ömmu mína og reiknaði í hausnum út frá aldrinum hennar hvað hún hafi verið gömul þegar hún átti pabba minn. Hún var einungis 14 ára. Ég spurði frænku mína hvaðan fjölskyldan okkar er upprunalega frá í Túnis, hún svaraði mér við erum frá Alsír. Ég vissi að afi minn var frá Alsír en ég vissi ekki að amma mín væri það líka. Frænka mín sagði mér að amma mín fæddist í Túnis en foreldrar hennar voru frá Alsír. Á þessu augnabliki varð þetta allt eiginlega of mikið fyrir mig, ég fann hvernig það fór að myndast kökkur í hálsinum. Ekkert var rökrétt lengur. Ég leit á Alaa og sagði við hann að ég vildi ekki vera þarna mikið lengur. Það var allt orðið svo óþægilegt og ég vissi ekki lengur hverju ég ætti að spyrja að. Ég horfði niður í djúsglasið mitt og leit svo upp á frænku mína. Hún sat og grét, ég veit ekki afhverju. Ég stóð upp og faðmaði hana og svo grétum við saman. Hún sagði við mig að ef þú bara talaðir arabísku þá gæti ég sagt þér margar sögur, margar sögur sem þú þarft að heyra. Eftir smá tíma sagði ég þeim að ég þyrfti að fara, amma mín stóð upp og rétti mér 10 dinar. Ég reyndi að segja nei við hana en hún krafðist að ég tæki við peningnum. Ég grét enn meira, hvernig getur það verið að fólk sem á ekki neitt sé að gefa mér stóran hluta af þeim pening sem það á. Ég kyssti alla bless og þá rétti frænka mín mér í viðbót 10 dinar. Ég þakkaði þeim fyrir og fór. Ég kom heim og lagðist upp í rúm og rotaðist. Ég var algjörlega búin á því.

Lagið sem ég talaði um í byrjun heitir Ya Rayah. Hér er þýðingin á textanum:

Oh Emigrant
Oh where are you going?
Eventually you must come back
How many ignorant people have regretted this
Before you and me
How many overpopulated countries and empty lands have you seen?
How much time have you wasted?
How much have you yet to lose?
Oh emigrant in the country of others
Do you even know what's going on?
Destiny and time follow their course but you ignore it
Why is your heart so sad?
And why are you staying there miserable?
Hardship will end and you no longer learn or build anything
The days don't last, just as your youth and mine didn't
Oh poor fellow who missed his chance just as I missed mine
Oh traveler, I give you a piece of advice to follow right away
See what is in your interest before you sell or buy
Oh sleeper, your news reached me
And what happened to you happened to me
Thus, the heart returns to its creator, the Highest (God)


Tuesday, February 4, 2014

Leitin að ömmu

Ég hef ákveðið eftir mikla umhugsun að heimsækja ömmu mína sem býr hérna í Túnis. Þetta er stór og mikilvæg ákvörðun sem ég þurfti að taka. Sérstaklega í ljósi þess að ég hef aldrei hitt ömmu mína áður eða talað við hana. Saga föðurfjölskyldu minnar er mjög flókin og að mörgu leyti dularfull fyrir mér. Margt af því sem ég hef heyrt um föðurfjölskyldu mína hefur ekki beint verið hvetjandi fyrir mig til þess að hafa samband við þau.

Á sunnudaginn ákváðu ég og Alaa að heimsækja ömmu mína. Pabbi hafði sent mér heimilisfangið hennar en hverfið sem hún býr í er mjög stórt og kaotískt og því erfitt að finna út hvar hún býr nákvæmlega. Við settumst upp í leigubíl og sögðum leigubílstjóranum hvert förinni var heitið. Þegar við vorum komin að hverfinu spyr leigubílstjórinn hvert inn í hverfið við ætluðum að fara, Alaa sýnir honum heitið á götunni og í sömu andrá stoppar leigubílstjórinn leigubílinn og segir að hann ætli ekki að fara með okkur að þessum hluta hverfisins, hann segir að hann myndi vera að leggja sjálfan sig og okkur sérstaklega í hættu þar sem klukkan var orðin sex og byrjað að dimma. Svo við snérum við og ákváðum að fara snemma daginn eftir í fylgd með vini Alaa sem þekkir hverfið.

Í gær gerðum við aðra tilraun. Við fórum mun fyrr af stað og tókum louage (sem er leigubíll sem tekur 8 - 10 manns í einu). Við fórum út í þeim hluta hverfisins sem við töldum væri líklegt að hún byggi í. Við löbbuðum að sjoppu og spurðum til vegar, strákarnir í sjoppunni reyndu að hjálpa okkur en voru ekki vissir hvar þessi gata væri. Hverfunum er skipt í fjórðunga og er hver fjórðungur merktur með númeri, t.d. eins og 10872 og því eins og gefur að skilja getur verið flókið að finna rétta fjórðung. Við löbbuðum fram og til baka og hring eftir hring, spyrjandi hvern einasta vegfarenda hvort að þau könnuðust við ömmu mína eða númerið á hennar hverfisfjórðung (sem ég mun nú framvegis kalla kvarter).  Hver einasta eldri kona sem gekk framhjá mér skoðaði ég gaumgæfulega til að sjá hvort að hún líktist mér á einhvern hátt. Við rákumst á mjög indæla eldri konu sem benti okkur á að fara á lögreglustöðina, þar gætu þeir gefið okkur ítarlegri upplýsingar á staðsetningunni á götunni. Hún fylgdi okkur að lögreglustöðinni og spurði á meðan hvers vegna við værum að leita að þessari konu, Alaa útskýrði fyrir henni sögu mína, konan tók utan um mig og bað Guð að blessa mig svo óskaði hún mér velgengis í leit að ömmu minni. Á þessum tímapunkti var ég orðin stressuð, ég hafði ekki verið stressuð áður en við lögðum af stað en það rann upp fyrir mér að ég væri í alvörunni að fara að hitta ömmu mína sem ég hafði ekki einu sinni séð áður. Lögreglan gaf okkur heitið á götunni og sagði að það ætti ekki að vera langt frá. Sagan endurtók sig aftur og löbbuðum við fram og tilbaka hring eftir hring spyrjandi í sjoppum og vegfarendur um götuna þar til við rákumst loks á stelpu sem að benti okkur á réttu götuna. Við gengum upp eftir götunni að leita að húsi númer 33. Gatan náði bara að húsi 20. Hér var ég algjörlega búin að gefast upp á að við myndum finna ömmu mína. Við gengum að næstu götu og Alaa fór í sjoppu og spurði afgreiðslumanninn hvort að hann kannaðist við nafn ömmu minnar. Maðurinn sagðist vita um eina konu sem byggi í þessari götu sem héti þessu sama nafni, hann sagðist ekki vita nákvæmlega hvar hún byggi en benti á hús neðar í götunni. Við gengum neðar og fundum númerið 33. Glugginn að húsinu var opinn og því hægt að sjá inn í íbúðina. Fyrsta sem ég tók eftir var að það voru tveir kettir inn í íbúðinni. Þá vissi ég að við værum á réttum stað, því pabbi hafði sagt mér að amma mín ætti marga ketti. Við bönkuðum á hurðina en enginn svaraði. Ég leit aftur inn í íbúðina til þess að skoða hana betur. Það var bekkur með dýnu og teppi yfir, teppinu hafði verið flett frá og gat ég því ímyndað mér að amma mín hafi verið nývöknuð og farið fram úr rúminu og beint út. Fyrir framan rúmið var kassi og plata yfir sem hún notar greinilega sem sófaborð. Á plötunni var pottur með brenndu cous cousi og hafði hún greinilega borðað lítinn hluta úr pottinum, mygluð sítróna, aska og brunablettur eftir að hafa drepið í sígarettu á borðinu. Á veggnum var lítil hvít klukka sem maður myndi venjulega sjá í barnaherbergi sem var stopp, kitsch málverk af ávöxtum og í hornunum voru stórir köngulóarvefir. Á gólfinu var gaseldhúshella. Svo var einn skápur. Því lengur sem ég horfði inn um íbúðina því skýrara sá ég fyrir mér hvernig líf hennar er. Við spurðum nágrannana hvort að þeir vissu hvar hún væri en þeir sögðu að hún væri alltaf heima en færi stundum út í göngutúra. Við ákváðum að bíða eftir henni. Meðan ég beið velti ég því fyrir mér hvort að hún vissi að ég væri til og hvort að hún viti hvað ég heiti. Kannski veit hún það og hefur beðið eftir þessum degi í áraraðir, kannski er henni alveg sama. Mér var samt illt í hjartanu. Ég hef alltaf vitað að hún væri ekki rík, en nú sá ég hversu eymdarlegt líf hennar hlýtur að vera. Við biðum fyrir utan húsið hennar í u.þ.b. 40 mínútur, við þurftum að fara vegna þess að Alaa þurfti að vera mættur á fund. Þegar við löbbuðum svo aftur tilbaka til þess að taka louage var ég í örvæntingu minni farin að leita henni allt um kring. Við sáum hana ekki og fórum upp í bílinn. Þegar bíllinn keyrði af stað fann ég fyrir óbærilegri sorg og sektarkennd. Ég horfði á eftir hverfinu meðan tárin streymdu niður.

Ég mun reyna aftur í vikunni að hafa uppi á henni og mun ég skrifa um það hér ef ég næ að hitta hana.

 - Nadia


Tuesday, January 21, 2014

Þversagnakennda Túnis

Ég er ringluð.

Að mjög mörgu leyti líður mér ekki eins og ég sé íhaldssömu landi stjórnað af islamistum. Fólkið sem ég umgengst hagar sér lítið öðruvísi en vinir mínir heima. Í Túnisborg er mikið af frjálslyndu fólki og mikið af listamönnum. Eða það held ég að minnsta kosti. En kannski er ég bara að umgangast allt aðra flóru af fólki en meirihlutinn er.

Ég hitti stelpu í síðustu viku sem er frá Túnis en er búsett í Frakklandi. Hún er svakalega kúl og afslöppuð, listatýpa sem vinnur sem myndatökukona og er söngkona í hljómsveit í Frakklandi. Við fórum að spjalla saman og hún segir mér það að bróðir hennar er í Sýrlandi núna að fremja Jihad. Ég missti algjörlega andlitið, ég vissi auðvitað væri eitthvað um öfgasinnaða Salafista hér, en þetta var samt svo furðulegt að tala við manneskju sem þekkir í alvörunni einhvern sem er að fara að drepa sig í nafni trúarinnar. Hún sagði mér að eftir byltinguna eru sífellt fleiri og fleiri sem að gerast öfgatrúaðir og nú er þetta orðið ansi algengt, að heittrúaðir Salafistar fari frá Túnis til Libýu, frá Libýu til Tyrklands í æfingarbúðir og svo frá Tyrklandi til Sýrlands til þess að framkvæma Jihad. Vinir mínir segja að vera trúaður er orðin að eins konar tísku hérna. Mikið af sjónvarpsefninu sem að Túnisbúar horfa á kemur frá Saudi-Arabíu, sama hvort að það sé sápuópera, barnaefni eða eitthvað annað er stöðugur áróður í gangi um Islam. Moskurnar stóla á pening frá Saudi-Arabíu og fer því mikill heilaþvottur fram þar og er ekkert eftirlit með hvað er verið að segja. Margir fangar eru heilaþvegnir í fangelsunum og eru margir þeirra sem fara inn sem trúleysingjar koma út mjög heittrúaðir. Vinkona mín sagði mér að fjölskyldan hennar er mjög áhyggjufull um bróður hennar, henni líður ekki vel með að þurfa skilja foreldra sína eina eftir þegar hún fer aftur til Frakklands.

Eins og gefur að skilja er eins og Túnis sé algjörlega blandað af íhaldssömu fólki, íhaldssömu heittrúuðu fólki, frjálslyndu trúuðu fólki og frjálslyndum trúleysingjum. Ég hef einungis verið hér í tvær vikur þannig að allar staðhæfingar skulu vera teknar með fyrirvara.

Alaa vinur minn kemur frá litlu þorpi í héraðinu Gabes sem er staðsett í Suður-Túnis. Þar er samfélagið einstaklega íhaldssamt. Hann sagði mér að frá því hann var 16 ára til 19 ára átti hann kærustu sem bjó í sama þorpi og hann. Þau kysstust fyrst eftir að hafa verið saman í 6 mánuði en yfir þessi þrjú ár þá sváfu þau aldrei saman. Ekki vegna þess að þeim langaði það ekki, aðallega vegna þess að þau gátu aldrei verið ein saman. Einnig er mjög mikilvægt þarna í þessu samfélagi að konan sé hrein mey þegar hún giftir sig. Það róttækasta sem þau gerðu á almannafæri var að haldast í hendur.

Ég á enn erfitt með að rata, þannig ég er nánast aldrei ein. Er alltaf í kringum einhvern sem er að fylgja mér eitthvað. En þær stuttu stundir sem ég er ein tek ég eftir því að fólkið hérna starir alveg viðbjóðslega mikið á mann, það gerir minna af því þegar ég er í fylgd með karlmanni. Í dag gekk ég framhjá kaffihúsi þar sem þrír feitir miðaldra menn sátu og góndu á mig, horfðu á mig upp og niður meðan ég labbaði hægt framhjá kaffihúsinu. Ég veit eiginlega ekki hvað kom yfir mig en þetta fauk alveg svakalega í mig svo að ég snéri mér að þeim og gretti mig. Ég labbaði svo rösklega áfram þar sem ég áttaði mig á að þetta hafi ekki verið neitt sérlega viturlegt af mér, það er aldrei að vita hvernig þeir hefðu getað brugðist við. Og þar sem ég er kona þá verð ég sjálfkrafa alltaf í órétti. Ég held að túristar komist samt upp með ýmsa hluti hér, en ég lít auðvitað út fyrir að vera innfædd. Í dag voru ég og Alaa að bíða eftir metro-inum, ég kveikti mér í sígarettu meðan við biðum. Á þessari stoppistöð voru einstaklega mikið af konum sem að gláptu á mig og störðu á mig með fyrirlitningu. Ég hugsaði með mér að það væri sennilega hvernig ég klæddi mig eða eitthvað því um líkt en Alaa sagði að þær voru að hneykslast á því að kona væri að reykja á almannafæri. Ég hef samt sem áður séð fullt af konum gera það, en greinilega fer það eftir því hvar á almannafæri þú gerir það.

Nú er ég búin að umgangast mikið af ungu háskólafólki og ég verð að segja að þó að ég hafi einungis verið hér í tvær vikur þá fyllist ég af algjöru ógeði af sjálfri mér og Íslendingum. Ég veit að þetta er harðort en ef að þið mynduð sjá hvernig fólk þarf í alvöru að lifa hérna þá væru þið á sama máli. Þau geta auðvitað ekki tekið námslán en þeir sem eru mjög fátækir fá styrk frá ríkinu upp á 17500kr. á 3 vikna fresti. Það er ekki mikill peningur hér. Flestir stóla á peninga frá foreldrum sínum og ef þú kemur ekki af efnaðri fjölskyldu þá ertu þau auðvitað ekki að fá mikinn pening. Það fólk sem að ég þekki borðar mjög lítið, stundum nánast ekki neitt, mesta lagi eina máltíð á dag. Ástæðan fyrir því að ég fyllist af ógeði er vegna þess að ég sé svo skýrt núna hvernig ég sjálf og Íslendingar förum með peninga, eyðum þeim í tilgangslausa hluti og vælum svo yfir því að við séum blönk. Hér þurfa þau að hugsa um hvern einasta aur og hvernig þau geta nýtt hann í eitthvað lífsnauðsynlegt eins og vatn eða mat. Atvinnuleysi fólks á aldrinum 18 - 30 ára er 36% og þá er það fólk sem er enn í námi eða er ekki í skóla, atvinnuleysi fólks á aldrinum 18 - 30 ára sem er útskrifað með háskólagráðu er 42%.

Ég fyllist af ógeði en ég ætla að reyna að vera þakklát fyrir allt það sem ég hef á Íslandi, ekki að taka því sem sjálfsögðum hlut.

Þar til næst

 - Nadia




Sunday, January 12, 2014

Zagg

Nú er ég búin að vera hér 5 daga samt líður mér eins og ég sé búin að vera hér í 5 vikur. Þegar allt umhverfi manns er svona rosalega nýtt þá er eins og tímaskyn manns breytist.

Ég er oftast úrvinda öll kvöld þó svo að ég hafi ekki gert mikið yfir daginn. Ég geri mest lítið en að fylgjast með umhverfinu, líkamshreyfingum, tungumálinu og hvernig fólk hagar sér, skrifa svo hjá mér punkta svo að kannski einn daginn muni ég fitta inn. Ég hef einnig haft mjög litla matarlyst, sem er ólíkt mér, ég gleymi oft að borða, ég hugsa orkan mín sé rekin áfram af forvitni og óöryggi.

Á föstudaginn flutti ég út af hostelinu og bý núna heima hjá Alaa tímabundið þar til ég mun finna annan stað. Við tókum tramminn frá miðbænum heim til hans, eitthvað sem ég hef áður gert í Túnis án nokkurra vandræða. Hins vegar hef ég aldrei ferðast um í tramminum á háanna tíma. Þvílík önnur eins hörmung. Ég get ímyndað mér að á mörgum stöðum í heiminum sé þetta líklegast verra. En fyrir Íslending með snertifóbíu á háu stigi var þetta ansi slæmt. Við hoppuðum inn í vagn sem ég hélt að við kæmumst líklega ekki inn í vegna hversu margir voru inn í honum. Við stóðum þar sem það voru engin sæti og vagninn byrjaði að keyra áfram. Á næsta stoppi ímyndaði ég mér að ástandið yrði bærilegra þar sem líklegast færi eitthvað af fólkinu út þar. Ég hafði rétt fyrir mér, það fóru út svona 10 manns, en við bættust kannski 30 manns inn í vagninn. Við hvert stopp fylltist vagninn meira og meira af fólki, að á tímabili fór ég að velta fyrir mér hvort að við værum stödd inn í einhverju óendanlegu svartholi. Svo standa allir þöglir og enginn segir neitt, auðvitað vegna þess að maður er í ónáttúrulegri nánd við ókunnugt fólk. Andfýlan í næsta manni lekur inn um nasirnar í bland við cumin svitalyktina af öðrum sem sefur líklegast í svarta leðurjakkanum sínum. Eftir u.þ.b. 10 mínútur af ferðinni var ég farin að öskra inn í mér og beið þess að ég myndi falla í yfirlið vegna súrefnisskorts (aðallega vegna fólksins sem gerði ekki annað en að hósta allan tíman, ég held að þau átti sig ekki á hversu miklu súrefni þau eru að stela frá okkur hinum með þessu hósti sínu). Ég komst óhullt út en velti því fyrir mér hvort að ég þyrfti að leggjast í sóttkví.

Á laugardaginn héldu Alaa og meðleigjendur hans (Hanna stelpa frá Þýskalandi og Ahmed frá Túnis) brunch þar sem talsvert mörgum var boðið. Hanna eldaði dýrindismáltíð ofan í alla sem við borðuðum upp á húsþaki. Andrúmsloftið var heldur betur afslappað og þægilegt. Samtölin voru svo mörg að nú á ég í erfiðleikum með að muna þau. Skemmtilegast var þá þegar ég lærði orðið zagg. Þegar ég heyri fólk tala saman reyni ég að grípa orð sem ég get borið fram og svo spyr ég hvað þau þýða. Ég rataði á orðið zagg sem þýðir fuglaskítur. Þetta er líklegast ónytsamlegasta orðið sem ég hef lært hingað til en hver veit nema í framtíðinni að það muni koma að góðum notum.

Túnisborg er full af skít. Því lengur sem ég er hérna, því betur tek ég eftir því. Ég held að þessi rómantíska glansmynd sem ég hef af Túnisborg sé smátt og smátt að falla. Nei, samt ekki svo dramatískt. Ég hugsaði með mér í kvöld hvort að sorphirðumennirnir séu kannski í verkfalli? Ég hef ekki heyrt um það, en borgin lítur hins vegar þannig út. Fjöll af rusli á hverju horni eða fjúkandi plast.

14. janúar eru þrjú ár liðin frá því að byltingin hófst. Hér verður því víst fagnað hófsamlega með fallegri skrúðgöngu, tónlist og dansi. Flestir sem ég tala við það þykja það sorglegt og kjánalegt. Sjáum til hvað mér mun finnast um það á þriðjudaginn.

Í gærkvöldi fórum við í afmæli hjá Ameríkana að nafni Sam sem er vinur Jawhers sem er vinur Alaa. Náðuð þið þessu? Gott. Mér leið heldur kjánalega að horfa á þennan hvíta Ameríkana tala lýtalausa arabísku og frönsku hægri og vinstri. Ég er ekki frá því að ég hafi upplifað vott af biturðleika gagnvart honum. En í rauninni er hann mjög yndislegur. Hann sagði mér frá því að hann og vinur hans væru að leita sér að meðleigjanda, svo í dag stökk ég á tækifærið og hafði samband við hann á Facebook. Við mæltum okkur mót til þess að skoða íbúðir. Kemur í ljós að hann er heldur betur magnaðar gaur. Hefur búið í Yemen, Marakkó og Egyptalandi og vinnur eins og er sem blaðamaður. Svo vonandi í vikunni finnum við íbúð sem við getum flutt inn í.

Ég rata ekkert hérna. Eftir fundinn með Sam þurfti ég að hringja í Hönnu til þess að biðja hana um að senda mér heimilisfangið í sms-i svo að ég gæti tekið leigubíl heim. Ég reyndi að stoppa nokkra leigubíla en flestir voru tregir við að keyra mig vegna þess að þeir vissu ekki nákvæmlega hvar heimilisfangið var. Á endanum útskýrði Sam fyrir leigubílstjóranum að hann ætti að stoppa við mosku nr. 2 í götunni. Ég settist því upp í bílinn. Þegar hann keyrði af stað kveiknaði á sjónvarpsskjá sem var staðsettur í hnakkanum á farþegasætinu. Eftir smá tíma áttaði ég mig á að ég hafði ekki verið að fylgjast með leiðinni og leigubílstjórinn segir við mig á frönsku "moska nr. 2?" og ég kinkaði kolli. Ég sá moskuna og bað hann um að stoppa. Í þessari götu sem þau búa er hraðbraut, lestarteinar og svo gangstétt. Á kvöldi til er gatan ekki vel lýst. Eftir að leigubíllinn keyrði í burtu áttaði ég mig á því að ég hafði farið út við mosku nr. 1 en ekki mosku nr. 2. Það fyrsta sem ég hugsaði var að byrja að hlaupa, moska nr. 2 var ekki svo langt frá. Ég byrjaði að skokka en heyrði útundan mér í einhverjum vera að keyra á vespu. Ég gaf í og hljóp hraðar. Ég sá útundan mér tvo unga stráka á vespunni, þeir byrjuðu að kalla á mig. Ég þóttist ekki heyra í þeim og hljóp ennþá hraðar. Þeir gáfu enn hraðar í og héldu áfram að kalla á mig. Ég hafði ekki hugmynd hvað þeir voru að segja en á þessum tímapunkti var ég orðin verulega hrædd. Ég byrjaði að hlaupa eins hratt og ég gat og fann að það var bíll á hraðbrautinni sem byrjaði að hægja á sér. Ég þorði ekki að líta inn í bílinn og hélt áfram að hlaupa. Bíllinn flautaði og ég leit við og þá var þetta sami leigubílstjóri og hafði hleypt mér út úr bílnum fyrir stuttu. Ég hoppaði inn í bílinn, leigubílstjórinn horfði á mig og spurði hvort að það væri í lagi með mig. Ég leit á hann til að ná andanum en fór svo að hágráta. Þvílíkt óöryggishræ sem ég varð. Strákarnir á vespunni keyrðu að leigubílnum, kom í ljós að þeir höfðu áhyggjur af mér og voru að reyna að spyrja hvort að það væri í lagi með mig, enda óvanalegt að sjá unga stúlku hlaupa við hraðbraut. Þessi leigubílstjóri var svo mikill engill og keyrði mig upp að dyrum, gaf mér vatn að drekka og vildi ekki að ég borgaði fyrir farið. Ég býst við að það séu til fleiri í heiminum sem vilja vel heldur en illt.

Á morgun hefst svo heimildarvinnan. Ég læt ykkur vita hvernig það gengur.

Þar til næst

Boussa boussa

 - Nadia





Wednesday, January 8, 2014

Fyrsti dagurinn

Ég lenti í Túnis í gærmorgun. Saber listamaðurinn sem ég mun vinna með og Alaa frændi hans komu og sóttu mig á flugvöllinn. Ég var reyndar stoppuð í vegabréfseftirlitinu eins og venjulega, vegna þess að þeim þykir það grunsamlegt að ég líti út eins og Túnisbúi en er með íslenskt vegabréf. Þeir báðu mig um að sýna þeim flugmiðana mína þar sem ég hafði ekki flogið beint frá Íslandi til Túnis. Auðvitað var ég ekki með neina flugmiða og auðvitað voru þeir bara að mestu leyti að bulla, en á endanum hleyptu þeir mér í gegn.

Ég gisti núna eins og er á hosteli, sem er ekki svo dýrt í nokkra daga en mun vera dýrt ef ég finn mér ekki stað bráðlega. Strákarnir þekkja franska stúlku sem á íbúð hérna í borginni og gæti ég leigt herbergi af henni, ég mun skoða það í vikunni.

Ég veit að margir ættingjar og vinir hafa áhyggjur að ég sé hérna í þessu landi, en ég vil að þið vitið að fólkið sem er í kringum mig er mjög gott. Eins og alls staðar annars staðar í heiminum er fólk mismunandi. Samfélagið hér er töluvert íhaldssamara en á Íslandi en hér er mikið af ungu, vinstrisinnuðu og vel upplýstu fólki.

Saber eldaði fyrir mig Ojja í kvöldmat sem er einn af túnískum þjóðarréttunum. Eftir kvöldmatinn kíktum við á bar sem er staðsettur á 10. hæð á hóteli hér í miðbænum. Barinn heitir Jamaica og er spiluð reggae tónlist þar, mikið af ungu fólki kemur þangað. Mér þykir hann dálítið fyndinn þar sem hann er staðsettur á rosalega fínu hóteli með þjónum klædda í smóking en blastar síðan reggaetónlist í botn. Ég gat séð yfir alla Túnisborgina þar, og þá fyrst rann upp fyrir mér að ég væri loksins komin hingað, hefði ég verið ein þá hefði ég líklegast fellt tár en ég var ekki alveg tilbúin að vera svo væmin fyrir framan þá við fyrstu kynni. Við fengum okkur tvo bjóra á barnum en ekki meir, þar sem áfengi hérna á börum er heldur dýrt fyrir unga námsmenn, það er helmingi dýrara að kaupa bjór hér á bar heldur en á Spáni til dæmis.

Hér eins og á Spáni kyssa allir hvorn annan á kinnina þegar þeir heilsast. Mér finnst það nú ekki mikið mál en í gær þótti mér þetta heldur óþægilegt þegar Saber og Alaa rákust á vini sem ég hafði aldrei hitt áður og þurfti að vera að kyssa alla á kinnina hægri og vinstri.

Við fórum svo aftur heim til Sabers þar sem fleira fólk kom í heimsókn. Á leiðinni þangað tók ég eftir að það var ungur strákur á götunni að selja egg, ég spurði Alaa hvað þetta væri og hann sagði mér að prufa. Ég hef aldrei séð þetta áður, þetta er sem sagt mjög linsoðið egg og brýtur eggjasölumaðurinn skurnina efst af, kryddar eggið með salti og cumen og svo tekur maður þetta eins og skot. Þetta var ekki vont en vægast sagt mjög skrítið. Við hliðina á okkur var ungur strákur sem tók í það minnsta fjögur eggjaskot og sagði Alaa mér að margir fá sér þetta svo að þeir getir drukkið meira áfengi, þetta þenur út magann og kemur í veg fyrir að þú ælir. Þegar við komum svo inn á stigaganginn heima hjá Saber sagði Alaa mér að loka hurðinni hljóðlega, ég reyndi að passa mig en skellti óvart hurðinni, það var niðamyrkur og á ganginum og heyrði ég í einhverjum manni að vera tala við Alaa. Þegar ég labbaði upp stigann sá ég mann liggja á ganginum með teppi. Ástæðan fyrir því að við þurftum að ganga um hljóðlega var vegna þess að húsvörðurinn var sofandi á stigaganginum. Það er vinnan hans.

Flestir sem að ég hef hitt tala mjög góða ensku. Saber skilur ensku mjög vel en á dálítið erfitt með að tala hana, þannig að samskipti okkar eru mjög fyndin, þegar hann skilur ekki hvað ég segi reyni ég á mjög bjagaðri frönsku að tjá mig og eins ef að hann finnur ekki réttu orðin talar hann við mig á frönsku. Við sátum öll fram eftir kvöldi að spjalla saman. Það eru allir mjög indælir og almennilegir við mig og það fólk sem ég hef hitt hafa mjög sterkar pólítískar skoðanir og einkennast flest samtölin af því. Saber tók mig í smá tungumálakennslu. Hann kenndi mér svona basic orð og setningar sem er ekki flókið en framburðurinn er hins vegar mjög erfiður fyrir mig. Ef ykkur finnst Danir tala eins og þeir séu með kartöflu í hálsinum, prufið þá túnísku. Eftir margar tilraunir að reyna bera fram einn bókstaf greip hann um hálsinn á mér og sagði "prufaðu núna" og þá ældi ég þessu hljóði út úr mér. Hlakka til þegar ég næ þessu almennilegu, svo ég þurfi ekki að kúgast í hvert skipti sem ég reyni að tala.

Svona fór fyrsti dagurinn minn. Í dag er ég víst að fara með Saber í tökur í stuttmynd sem hann er að leika í og svo munum við fara í bíó í kvöld á túníska bíómynd.

Þangað til næst - Besslema (Bless)

 - Nadia