Jæja, þá er ég búin að vera næstum viku hér á Cómpeta. Flugin hingað voru algjör hörmung aðallega vegna nýrra regla hjá lággjaldaflugfélugunum um handfarangur, lenti í allsherjar veseni en ekkert sem ég nenni þó að skrifa um hér.
Ég er búin að vera hér hjá mömmu í tæplega viku að hafa það mjög náðugt. En fyrir ykkur sem ekki vitið þá býr mamma í litlum bæ á Spáni (Cómpeta) sem er staðsettur upp í fjöllum, svona klukkustunda akstur frá Málaga. Fyrsti dagurinn minn hér fór aðallega í að klára verkefni fyrir skólann, ég þurfti að skila inn handriti og svo greinargerð um handritið samdægurs. Einhverra hluta vegna (ég hef enn ekki fengið svör við því) á rafmagnið hér það til að detta út daglega, stundum dettur það út í 5 mínútur stundum í klukkutíma, það er aldrei hægt að reikna með hvenær það fer og hvenær það kemur. Eftir að hafa loksins klárað verkefnin ætlaði ég að senda þau til kennarans en rafmagnið sló út, á öllum bænum. Ég sat hér niðamyrkri gráti nær, því ég vissi ekki hvenær rafmagnið kæmi aftur á. Sem betur fer liðu ekki nema svona 10 mínútur og ég gat sent verkefnin á kennarann. Eftir að hafa sent handritið inn, áttaði ég mig á því að þetta var fyrsta handritið sem ég hef skrifað, á ævinni. Og ég ætla bara að segja það sjálf að ég er bara nokkuð stolt af mér.
Sama kvöld og ég skilaði inn verkefnunum kíkti ég út í bjór með einum íslenskum strák sem á líka foreldra sem að búa hér. Hann kynnti mig fyrir tveimur Bretum sem eru búsettir hérna. Það er orðið heldur augljóst hvað ég er orðin takmörkuð í umræðum nema það snúist að einhverju leyti um femínisma, þannig eftir 3 bjóra var ég farin að predika um útlitsdýrkun og birtingarmynd kvenna í fjölmiðlum. Ég veit ekki hvort að það var einungis til að halda mér góðri en strákunum fannst femínismi orðinn áhugaverður eftir að ég hafði staðið yfir þeim eins og Benny Hinn að frelsa þá frá djöflum feðraveldisins. Ég hef hitt þá nokkrum sinnum eftir þetta kvöld og báðu þeir mér að senda sér myndina Killing Us Softly 4 sem ég hafði talað svo mikið um, sem þeir horfðu á. Við áttum svo mjög áhugaverðar samræður um þá mynd. Þeim fannst í fyrstu mjög erfitt að horfa á hana þar sem þeim þótti Jean Kilbourne fyrirlesarinn vera óþægileg og töluðu þeir um að þeim liði eins og hún hataði karlmenn. Ég get ekki sagt að ég sjálf hafi upplifað þessa konu þannig en á endanum virtust þeir vera sammála um það að kannski liði þeim eins og þessi mynd væri árás á sína karlmennsku. Þannig að þú kæri lesandi getur dæmt það út af fyrir þig. Horfðu á hana! Er ekki hægt að gerast trúboði femínisma? Ég er alla vega komin ansi nálægt því.
Næstu dagar eru búnir að einkennast af mjög miklu tjilli og áti á góðum mat. Á Þorláksmessu sátu ég og mamma í 20° hita á torginu og drukkum kaffi. Þessi hiti varð mér nánast ofviða, enda nýkomin úr skítakuldanum á Íslandi. Á aðfangadag varð ég eitthvað voðalega meyr, ekkert rosaleg leið meira bara meyr. Ég var með tárin í augunum allan daginn, svo um kvöldið þegar ég opnaði pakkann frá systur minni sá ég að hún hafði gefið mér flugmiða til Noregs (þar sem hún býr), sprakk ég bara og hágrét óstöðvandi á sófanum. Þvílíkt yndi sem hún systir mín er.
Núna eru ég og mamma að fara í brunch til vinafólks okkar hérna að borða Hamborgarhryggstartalettur.
Þar til næst hafið það gott kæru vinir.
Nadia
það er alltaf gaman að segja fólki frá einhverju sem það hefur ekki um áður og vekja áhuga þeirra . Killing us softly ætti að vera skyldu áhorf. ánægð með þig!
ReplyDeleteOg í hundabænum viltu gjöra svo vel að njóta hitans!? halló.. annars skal ég bara skipta við þig , ekkert mál! ;)
kv. Domi
Bloggedíblogg. Gaman gaman
ReplyDelete