Tuesday, January 21, 2014

Þversagnakennda Túnis

Ég er ringluð.

Að mjög mörgu leyti líður mér ekki eins og ég sé íhaldssömu landi stjórnað af islamistum. Fólkið sem ég umgengst hagar sér lítið öðruvísi en vinir mínir heima. Í Túnisborg er mikið af frjálslyndu fólki og mikið af listamönnum. Eða það held ég að minnsta kosti. En kannski er ég bara að umgangast allt aðra flóru af fólki en meirihlutinn er.

Ég hitti stelpu í síðustu viku sem er frá Túnis en er búsett í Frakklandi. Hún er svakalega kúl og afslöppuð, listatýpa sem vinnur sem myndatökukona og er söngkona í hljómsveit í Frakklandi. Við fórum að spjalla saman og hún segir mér það að bróðir hennar er í Sýrlandi núna að fremja Jihad. Ég missti algjörlega andlitið, ég vissi auðvitað væri eitthvað um öfgasinnaða Salafista hér, en þetta var samt svo furðulegt að tala við manneskju sem þekkir í alvörunni einhvern sem er að fara að drepa sig í nafni trúarinnar. Hún sagði mér að eftir byltinguna eru sífellt fleiri og fleiri sem að gerast öfgatrúaðir og nú er þetta orðið ansi algengt, að heittrúaðir Salafistar fari frá Túnis til Libýu, frá Libýu til Tyrklands í æfingarbúðir og svo frá Tyrklandi til Sýrlands til þess að framkvæma Jihad. Vinir mínir segja að vera trúaður er orðin að eins konar tísku hérna. Mikið af sjónvarpsefninu sem að Túnisbúar horfa á kemur frá Saudi-Arabíu, sama hvort að það sé sápuópera, barnaefni eða eitthvað annað er stöðugur áróður í gangi um Islam. Moskurnar stóla á pening frá Saudi-Arabíu og fer því mikill heilaþvottur fram þar og er ekkert eftirlit með hvað er verið að segja. Margir fangar eru heilaþvegnir í fangelsunum og eru margir þeirra sem fara inn sem trúleysingjar koma út mjög heittrúaðir. Vinkona mín sagði mér að fjölskyldan hennar er mjög áhyggjufull um bróður hennar, henni líður ekki vel með að þurfa skilja foreldra sína eina eftir þegar hún fer aftur til Frakklands.

Eins og gefur að skilja er eins og Túnis sé algjörlega blandað af íhaldssömu fólki, íhaldssömu heittrúuðu fólki, frjálslyndu trúuðu fólki og frjálslyndum trúleysingjum. Ég hef einungis verið hér í tvær vikur þannig að allar staðhæfingar skulu vera teknar með fyrirvara.

Alaa vinur minn kemur frá litlu þorpi í héraðinu Gabes sem er staðsett í Suður-Túnis. Þar er samfélagið einstaklega íhaldssamt. Hann sagði mér að frá því hann var 16 ára til 19 ára átti hann kærustu sem bjó í sama þorpi og hann. Þau kysstust fyrst eftir að hafa verið saman í 6 mánuði en yfir þessi þrjú ár þá sváfu þau aldrei saman. Ekki vegna þess að þeim langaði það ekki, aðallega vegna þess að þau gátu aldrei verið ein saman. Einnig er mjög mikilvægt þarna í þessu samfélagi að konan sé hrein mey þegar hún giftir sig. Það róttækasta sem þau gerðu á almannafæri var að haldast í hendur.

Ég á enn erfitt með að rata, þannig ég er nánast aldrei ein. Er alltaf í kringum einhvern sem er að fylgja mér eitthvað. En þær stuttu stundir sem ég er ein tek ég eftir því að fólkið hérna starir alveg viðbjóðslega mikið á mann, það gerir minna af því þegar ég er í fylgd með karlmanni. Í dag gekk ég framhjá kaffihúsi þar sem þrír feitir miðaldra menn sátu og góndu á mig, horfðu á mig upp og niður meðan ég labbaði hægt framhjá kaffihúsinu. Ég veit eiginlega ekki hvað kom yfir mig en þetta fauk alveg svakalega í mig svo að ég snéri mér að þeim og gretti mig. Ég labbaði svo rösklega áfram þar sem ég áttaði mig á að þetta hafi ekki verið neitt sérlega viturlegt af mér, það er aldrei að vita hvernig þeir hefðu getað brugðist við. Og þar sem ég er kona þá verð ég sjálfkrafa alltaf í órétti. Ég held að túristar komist samt upp með ýmsa hluti hér, en ég lít auðvitað út fyrir að vera innfædd. Í dag voru ég og Alaa að bíða eftir metro-inum, ég kveikti mér í sígarettu meðan við biðum. Á þessari stoppistöð voru einstaklega mikið af konum sem að gláptu á mig og störðu á mig með fyrirlitningu. Ég hugsaði með mér að það væri sennilega hvernig ég klæddi mig eða eitthvað því um líkt en Alaa sagði að þær voru að hneykslast á því að kona væri að reykja á almannafæri. Ég hef samt sem áður séð fullt af konum gera það, en greinilega fer það eftir því hvar á almannafæri þú gerir það.

Nú er ég búin að umgangast mikið af ungu háskólafólki og ég verð að segja að þó að ég hafi einungis verið hér í tvær vikur þá fyllist ég af algjöru ógeði af sjálfri mér og Íslendingum. Ég veit að þetta er harðort en ef að þið mynduð sjá hvernig fólk þarf í alvöru að lifa hérna þá væru þið á sama máli. Þau geta auðvitað ekki tekið námslán en þeir sem eru mjög fátækir fá styrk frá ríkinu upp á 17500kr. á 3 vikna fresti. Það er ekki mikill peningur hér. Flestir stóla á peninga frá foreldrum sínum og ef þú kemur ekki af efnaðri fjölskyldu þá ertu þau auðvitað ekki að fá mikinn pening. Það fólk sem að ég þekki borðar mjög lítið, stundum nánast ekki neitt, mesta lagi eina máltíð á dag. Ástæðan fyrir því að ég fyllist af ógeði er vegna þess að ég sé svo skýrt núna hvernig ég sjálf og Íslendingar förum með peninga, eyðum þeim í tilgangslausa hluti og vælum svo yfir því að við séum blönk. Hér þurfa þau að hugsa um hvern einasta aur og hvernig þau geta nýtt hann í eitthvað lífsnauðsynlegt eins og vatn eða mat. Atvinnuleysi fólks á aldrinum 18 - 30 ára er 36% og þá er það fólk sem er enn í námi eða er ekki í skóla, atvinnuleysi fólks á aldrinum 18 - 30 ára sem er útskrifað með háskólagráðu er 42%.

Ég fyllist af ógeði en ég ætla að reyna að vera þakklát fyrir allt það sem ég hef á Íslandi, ekki að taka því sem sjálfsögðum hlut.

Þar til næst

 - Nadia




No comments:

Post a Comment