Tuesday, January 21, 2014

Þversagnakennda Túnis

Ég er ringluð.

Að mjög mörgu leyti líður mér ekki eins og ég sé íhaldssömu landi stjórnað af islamistum. Fólkið sem ég umgengst hagar sér lítið öðruvísi en vinir mínir heima. Í Túnisborg er mikið af frjálslyndu fólki og mikið af listamönnum. Eða það held ég að minnsta kosti. En kannski er ég bara að umgangast allt aðra flóru af fólki en meirihlutinn er.

Ég hitti stelpu í síðustu viku sem er frá Túnis en er búsett í Frakklandi. Hún er svakalega kúl og afslöppuð, listatýpa sem vinnur sem myndatökukona og er söngkona í hljómsveit í Frakklandi. Við fórum að spjalla saman og hún segir mér það að bróðir hennar er í Sýrlandi núna að fremja Jihad. Ég missti algjörlega andlitið, ég vissi auðvitað væri eitthvað um öfgasinnaða Salafista hér, en þetta var samt svo furðulegt að tala við manneskju sem þekkir í alvörunni einhvern sem er að fara að drepa sig í nafni trúarinnar. Hún sagði mér að eftir byltinguna eru sífellt fleiri og fleiri sem að gerast öfgatrúaðir og nú er þetta orðið ansi algengt, að heittrúaðir Salafistar fari frá Túnis til Libýu, frá Libýu til Tyrklands í æfingarbúðir og svo frá Tyrklandi til Sýrlands til þess að framkvæma Jihad. Vinir mínir segja að vera trúaður er orðin að eins konar tísku hérna. Mikið af sjónvarpsefninu sem að Túnisbúar horfa á kemur frá Saudi-Arabíu, sama hvort að það sé sápuópera, barnaefni eða eitthvað annað er stöðugur áróður í gangi um Islam. Moskurnar stóla á pening frá Saudi-Arabíu og fer því mikill heilaþvottur fram þar og er ekkert eftirlit með hvað er verið að segja. Margir fangar eru heilaþvegnir í fangelsunum og eru margir þeirra sem fara inn sem trúleysingjar koma út mjög heittrúaðir. Vinkona mín sagði mér að fjölskyldan hennar er mjög áhyggjufull um bróður hennar, henni líður ekki vel með að þurfa skilja foreldra sína eina eftir þegar hún fer aftur til Frakklands.

Eins og gefur að skilja er eins og Túnis sé algjörlega blandað af íhaldssömu fólki, íhaldssömu heittrúuðu fólki, frjálslyndu trúuðu fólki og frjálslyndum trúleysingjum. Ég hef einungis verið hér í tvær vikur þannig að allar staðhæfingar skulu vera teknar með fyrirvara.

Alaa vinur minn kemur frá litlu þorpi í héraðinu Gabes sem er staðsett í Suður-Túnis. Þar er samfélagið einstaklega íhaldssamt. Hann sagði mér að frá því hann var 16 ára til 19 ára átti hann kærustu sem bjó í sama þorpi og hann. Þau kysstust fyrst eftir að hafa verið saman í 6 mánuði en yfir þessi þrjú ár þá sváfu þau aldrei saman. Ekki vegna þess að þeim langaði það ekki, aðallega vegna þess að þau gátu aldrei verið ein saman. Einnig er mjög mikilvægt þarna í þessu samfélagi að konan sé hrein mey þegar hún giftir sig. Það róttækasta sem þau gerðu á almannafæri var að haldast í hendur.

Ég á enn erfitt með að rata, þannig ég er nánast aldrei ein. Er alltaf í kringum einhvern sem er að fylgja mér eitthvað. En þær stuttu stundir sem ég er ein tek ég eftir því að fólkið hérna starir alveg viðbjóðslega mikið á mann, það gerir minna af því þegar ég er í fylgd með karlmanni. Í dag gekk ég framhjá kaffihúsi þar sem þrír feitir miðaldra menn sátu og góndu á mig, horfðu á mig upp og niður meðan ég labbaði hægt framhjá kaffihúsinu. Ég veit eiginlega ekki hvað kom yfir mig en þetta fauk alveg svakalega í mig svo að ég snéri mér að þeim og gretti mig. Ég labbaði svo rösklega áfram þar sem ég áttaði mig á að þetta hafi ekki verið neitt sérlega viturlegt af mér, það er aldrei að vita hvernig þeir hefðu getað brugðist við. Og þar sem ég er kona þá verð ég sjálfkrafa alltaf í órétti. Ég held að túristar komist samt upp með ýmsa hluti hér, en ég lít auðvitað út fyrir að vera innfædd. Í dag voru ég og Alaa að bíða eftir metro-inum, ég kveikti mér í sígarettu meðan við biðum. Á þessari stoppistöð voru einstaklega mikið af konum sem að gláptu á mig og störðu á mig með fyrirlitningu. Ég hugsaði með mér að það væri sennilega hvernig ég klæddi mig eða eitthvað því um líkt en Alaa sagði að þær voru að hneykslast á því að kona væri að reykja á almannafæri. Ég hef samt sem áður séð fullt af konum gera það, en greinilega fer það eftir því hvar á almannafæri þú gerir það.

Nú er ég búin að umgangast mikið af ungu háskólafólki og ég verð að segja að þó að ég hafi einungis verið hér í tvær vikur þá fyllist ég af algjöru ógeði af sjálfri mér og Íslendingum. Ég veit að þetta er harðort en ef að þið mynduð sjá hvernig fólk þarf í alvöru að lifa hérna þá væru þið á sama máli. Þau geta auðvitað ekki tekið námslán en þeir sem eru mjög fátækir fá styrk frá ríkinu upp á 17500kr. á 3 vikna fresti. Það er ekki mikill peningur hér. Flestir stóla á peninga frá foreldrum sínum og ef þú kemur ekki af efnaðri fjölskyldu þá ertu þau auðvitað ekki að fá mikinn pening. Það fólk sem að ég þekki borðar mjög lítið, stundum nánast ekki neitt, mesta lagi eina máltíð á dag. Ástæðan fyrir því að ég fyllist af ógeði er vegna þess að ég sé svo skýrt núna hvernig ég sjálf og Íslendingar förum með peninga, eyðum þeim í tilgangslausa hluti og vælum svo yfir því að við séum blönk. Hér þurfa þau að hugsa um hvern einasta aur og hvernig þau geta nýtt hann í eitthvað lífsnauðsynlegt eins og vatn eða mat. Atvinnuleysi fólks á aldrinum 18 - 30 ára er 36% og þá er það fólk sem er enn í námi eða er ekki í skóla, atvinnuleysi fólks á aldrinum 18 - 30 ára sem er útskrifað með háskólagráðu er 42%.

Ég fyllist af ógeði en ég ætla að reyna að vera þakklát fyrir allt það sem ég hef á Íslandi, ekki að taka því sem sjálfsögðum hlut.

Þar til næst

 - Nadia




Sunday, January 12, 2014

Zagg

Nú er ég búin að vera hér 5 daga samt líður mér eins og ég sé búin að vera hér í 5 vikur. Þegar allt umhverfi manns er svona rosalega nýtt þá er eins og tímaskyn manns breytist.

Ég er oftast úrvinda öll kvöld þó svo að ég hafi ekki gert mikið yfir daginn. Ég geri mest lítið en að fylgjast með umhverfinu, líkamshreyfingum, tungumálinu og hvernig fólk hagar sér, skrifa svo hjá mér punkta svo að kannski einn daginn muni ég fitta inn. Ég hef einnig haft mjög litla matarlyst, sem er ólíkt mér, ég gleymi oft að borða, ég hugsa orkan mín sé rekin áfram af forvitni og óöryggi.

Á föstudaginn flutti ég út af hostelinu og bý núna heima hjá Alaa tímabundið þar til ég mun finna annan stað. Við tókum tramminn frá miðbænum heim til hans, eitthvað sem ég hef áður gert í Túnis án nokkurra vandræða. Hins vegar hef ég aldrei ferðast um í tramminum á háanna tíma. Þvílík önnur eins hörmung. Ég get ímyndað mér að á mörgum stöðum í heiminum sé þetta líklegast verra. En fyrir Íslending með snertifóbíu á háu stigi var þetta ansi slæmt. Við hoppuðum inn í vagn sem ég hélt að við kæmumst líklega ekki inn í vegna hversu margir voru inn í honum. Við stóðum þar sem það voru engin sæti og vagninn byrjaði að keyra áfram. Á næsta stoppi ímyndaði ég mér að ástandið yrði bærilegra þar sem líklegast færi eitthvað af fólkinu út þar. Ég hafði rétt fyrir mér, það fóru út svona 10 manns, en við bættust kannski 30 manns inn í vagninn. Við hvert stopp fylltist vagninn meira og meira af fólki, að á tímabili fór ég að velta fyrir mér hvort að við værum stödd inn í einhverju óendanlegu svartholi. Svo standa allir þöglir og enginn segir neitt, auðvitað vegna þess að maður er í ónáttúrulegri nánd við ókunnugt fólk. Andfýlan í næsta manni lekur inn um nasirnar í bland við cumin svitalyktina af öðrum sem sefur líklegast í svarta leðurjakkanum sínum. Eftir u.þ.b. 10 mínútur af ferðinni var ég farin að öskra inn í mér og beið þess að ég myndi falla í yfirlið vegna súrefnisskorts (aðallega vegna fólksins sem gerði ekki annað en að hósta allan tíman, ég held að þau átti sig ekki á hversu miklu súrefni þau eru að stela frá okkur hinum með þessu hósti sínu). Ég komst óhullt út en velti því fyrir mér hvort að ég þyrfti að leggjast í sóttkví.

Á laugardaginn héldu Alaa og meðleigjendur hans (Hanna stelpa frá Þýskalandi og Ahmed frá Túnis) brunch þar sem talsvert mörgum var boðið. Hanna eldaði dýrindismáltíð ofan í alla sem við borðuðum upp á húsþaki. Andrúmsloftið var heldur betur afslappað og þægilegt. Samtölin voru svo mörg að nú á ég í erfiðleikum með að muna þau. Skemmtilegast var þá þegar ég lærði orðið zagg. Þegar ég heyri fólk tala saman reyni ég að grípa orð sem ég get borið fram og svo spyr ég hvað þau þýða. Ég rataði á orðið zagg sem þýðir fuglaskítur. Þetta er líklegast ónytsamlegasta orðið sem ég hef lært hingað til en hver veit nema í framtíðinni að það muni koma að góðum notum.

Túnisborg er full af skít. Því lengur sem ég er hérna, því betur tek ég eftir því. Ég held að þessi rómantíska glansmynd sem ég hef af Túnisborg sé smátt og smátt að falla. Nei, samt ekki svo dramatískt. Ég hugsaði með mér í kvöld hvort að sorphirðumennirnir séu kannski í verkfalli? Ég hef ekki heyrt um það, en borgin lítur hins vegar þannig út. Fjöll af rusli á hverju horni eða fjúkandi plast.

14. janúar eru þrjú ár liðin frá því að byltingin hófst. Hér verður því víst fagnað hófsamlega með fallegri skrúðgöngu, tónlist og dansi. Flestir sem ég tala við það þykja það sorglegt og kjánalegt. Sjáum til hvað mér mun finnast um það á þriðjudaginn.

Í gærkvöldi fórum við í afmæli hjá Ameríkana að nafni Sam sem er vinur Jawhers sem er vinur Alaa. Náðuð þið þessu? Gott. Mér leið heldur kjánalega að horfa á þennan hvíta Ameríkana tala lýtalausa arabísku og frönsku hægri og vinstri. Ég er ekki frá því að ég hafi upplifað vott af biturðleika gagnvart honum. En í rauninni er hann mjög yndislegur. Hann sagði mér frá því að hann og vinur hans væru að leita sér að meðleigjanda, svo í dag stökk ég á tækifærið og hafði samband við hann á Facebook. Við mæltum okkur mót til þess að skoða íbúðir. Kemur í ljós að hann er heldur betur magnaðar gaur. Hefur búið í Yemen, Marakkó og Egyptalandi og vinnur eins og er sem blaðamaður. Svo vonandi í vikunni finnum við íbúð sem við getum flutt inn í.

Ég rata ekkert hérna. Eftir fundinn með Sam þurfti ég að hringja í Hönnu til þess að biðja hana um að senda mér heimilisfangið í sms-i svo að ég gæti tekið leigubíl heim. Ég reyndi að stoppa nokkra leigubíla en flestir voru tregir við að keyra mig vegna þess að þeir vissu ekki nákvæmlega hvar heimilisfangið var. Á endanum útskýrði Sam fyrir leigubílstjóranum að hann ætti að stoppa við mosku nr. 2 í götunni. Ég settist því upp í bílinn. Þegar hann keyrði af stað kveiknaði á sjónvarpsskjá sem var staðsettur í hnakkanum á farþegasætinu. Eftir smá tíma áttaði ég mig á að ég hafði ekki verið að fylgjast með leiðinni og leigubílstjórinn segir við mig á frönsku "moska nr. 2?" og ég kinkaði kolli. Ég sá moskuna og bað hann um að stoppa. Í þessari götu sem þau búa er hraðbraut, lestarteinar og svo gangstétt. Á kvöldi til er gatan ekki vel lýst. Eftir að leigubíllinn keyrði í burtu áttaði ég mig á því að ég hafði farið út við mosku nr. 1 en ekki mosku nr. 2. Það fyrsta sem ég hugsaði var að byrja að hlaupa, moska nr. 2 var ekki svo langt frá. Ég byrjaði að skokka en heyrði útundan mér í einhverjum vera að keyra á vespu. Ég gaf í og hljóp hraðar. Ég sá útundan mér tvo unga stráka á vespunni, þeir byrjuðu að kalla á mig. Ég þóttist ekki heyra í þeim og hljóp ennþá hraðar. Þeir gáfu enn hraðar í og héldu áfram að kalla á mig. Ég hafði ekki hugmynd hvað þeir voru að segja en á þessum tímapunkti var ég orðin verulega hrædd. Ég byrjaði að hlaupa eins hratt og ég gat og fann að það var bíll á hraðbrautinni sem byrjaði að hægja á sér. Ég þorði ekki að líta inn í bílinn og hélt áfram að hlaupa. Bíllinn flautaði og ég leit við og þá var þetta sami leigubílstjóri og hafði hleypt mér út úr bílnum fyrir stuttu. Ég hoppaði inn í bílinn, leigubílstjórinn horfði á mig og spurði hvort að það væri í lagi með mig. Ég leit á hann til að ná andanum en fór svo að hágráta. Þvílíkt óöryggishræ sem ég varð. Strákarnir á vespunni keyrðu að leigubílnum, kom í ljós að þeir höfðu áhyggjur af mér og voru að reyna að spyrja hvort að það væri í lagi með mig, enda óvanalegt að sjá unga stúlku hlaupa við hraðbraut. Þessi leigubílstjóri var svo mikill engill og keyrði mig upp að dyrum, gaf mér vatn að drekka og vildi ekki að ég borgaði fyrir farið. Ég býst við að það séu til fleiri í heiminum sem vilja vel heldur en illt.

Á morgun hefst svo heimildarvinnan. Ég læt ykkur vita hvernig það gengur.

Þar til næst

Boussa boussa

 - Nadia





Wednesday, January 8, 2014

Fyrsti dagurinn

Ég lenti í Túnis í gærmorgun. Saber listamaðurinn sem ég mun vinna með og Alaa frændi hans komu og sóttu mig á flugvöllinn. Ég var reyndar stoppuð í vegabréfseftirlitinu eins og venjulega, vegna þess að þeim þykir það grunsamlegt að ég líti út eins og Túnisbúi en er með íslenskt vegabréf. Þeir báðu mig um að sýna þeim flugmiðana mína þar sem ég hafði ekki flogið beint frá Íslandi til Túnis. Auðvitað var ég ekki með neina flugmiða og auðvitað voru þeir bara að mestu leyti að bulla, en á endanum hleyptu þeir mér í gegn.

Ég gisti núna eins og er á hosteli, sem er ekki svo dýrt í nokkra daga en mun vera dýrt ef ég finn mér ekki stað bráðlega. Strákarnir þekkja franska stúlku sem á íbúð hérna í borginni og gæti ég leigt herbergi af henni, ég mun skoða það í vikunni.

Ég veit að margir ættingjar og vinir hafa áhyggjur að ég sé hérna í þessu landi, en ég vil að þið vitið að fólkið sem er í kringum mig er mjög gott. Eins og alls staðar annars staðar í heiminum er fólk mismunandi. Samfélagið hér er töluvert íhaldssamara en á Íslandi en hér er mikið af ungu, vinstrisinnuðu og vel upplýstu fólki.

Saber eldaði fyrir mig Ojja í kvöldmat sem er einn af túnískum þjóðarréttunum. Eftir kvöldmatinn kíktum við á bar sem er staðsettur á 10. hæð á hóteli hér í miðbænum. Barinn heitir Jamaica og er spiluð reggae tónlist þar, mikið af ungu fólki kemur þangað. Mér þykir hann dálítið fyndinn þar sem hann er staðsettur á rosalega fínu hóteli með þjónum klædda í smóking en blastar síðan reggaetónlist í botn. Ég gat séð yfir alla Túnisborgina þar, og þá fyrst rann upp fyrir mér að ég væri loksins komin hingað, hefði ég verið ein þá hefði ég líklegast fellt tár en ég var ekki alveg tilbúin að vera svo væmin fyrir framan þá við fyrstu kynni. Við fengum okkur tvo bjóra á barnum en ekki meir, þar sem áfengi hérna á börum er heldur dýrt fyrir unga námsmenn, það er helmingi dýrara að kaupa bjór hér á bar heldur en á Spáni til dæmis.

Hér eins og á Spáni kyssa allir hvorn annan á kinnina þegar þeir heilsast. Mér finnst það nú ekki mikið mál en í gær þótti mér þetta heldur óþægilegt þegar Saber og Alaa rákust á vini sem ég hafði aldrei hitt áður og þurfti að vera að kyssa alla á kinnina hægri og vinstri.

Við fórum svo aftur heim til Sabers þar sem fleira fólk kom í heimsókn. Á leiðinni þangað tók ég eftir að það var ungur strákur á götunni að selja egg, ég spurði Alaa hvað þetta væri og hann sagði mér að prufa. Ég hef aldrei séð þetta áður, þetta er sem sagt mjög linsoðið egg og brýtur eggjasölumaðurinn skurnina efst af, kryddar eggið með salti og cumen og svo tekur maður þetta eins og skot. Þetta var ekki vont en vægast sagt mjög skrítið. Við hliðina á okkur var ungur strákur sem tók í það minnsta fjögur eggjaskot og sagði Alaa mér að margir fá sér þetta svo að þeir getir drukkið meira áfengi, þetta þenur út magann og kemur í veg fyrir að þú ælir. Þegar við komum svo inn á stigaganginn heima hjá Saber sagði Alaa mér að loka hurðinni hljóðlega, ég reyndi að passa mig en skellti óvart hurðinni, það var niðamyrkur og á ganginum og heyrði ég í einhverjum manni að vera tala við Alaa. Þegar ég labbaði upp stigann sá ég mann liggja á ganginum með teppi. Ástæðan fyrir því að við þurftum að ganga um hljóðlega var vegna þess að húsvörðurinn var sofandi á stigaganginum. Það er vinnan hans.

Flestir sem að ég hef hitt tala mjög góða ensku. Saber skilur ensku mjög vel en á dálítið erfitt með að tala hana, þannig að samskipti okkar eru mjög fyndin, þegar hann skilur ekki hvað ég segi reyni ég á mjög bjagaðri frönsku að tjá mig og eins ef að hann finnur ekki réttu orðin talar hann við mig á frönsku. Við sátum öll fram eftir kvöldi að spjalla saman. Það eru allir mjög indælir og almennilegir við mig og það fólk sem ég hef hitt hafa mjög sterkar pólítískar skoðanir og einkennast flest samtölin af því. Saber tók mig í smá tungumálakennslu. Hann kenndi mér svona basic orð og setningar sem er ekki flókið en framburðurinn er hins vegar mjög erfiður fyrir mig. Ef ykkur finnst Danir tala eins og þeir séu með kartöflu í hálsinum, prufið þá túnísku. Eftir margar tilraunir að reyna bera fram einn bókstaf greip hann um hálsinn á mér og sagði "prufaðu núna" og þá ældi ég þessu hljóði út úr mér. Hlakka til þegar ég næ þessu almennilegu, svo ég þurfi ekki að kúgast í hvert skipti sem ég reyni að tala.

Svona fór fyrsti dagurinn minn. Í dag er ég víst að fara með Saber í tökur í stuttmynd sem hann er að leika í og svo munum við fara í bíó í kvöld á túníska bíómynd.

Þangað til næst - Besslema (Bless)

 - Nadia