Nú er ég búin að vera hér 5 daga samt líður mér eins og ég sé búin að vera hér í 5 vikur. Þegar allt umhverfi manns er svona rosalega nýtt þá er eins og tímaskyn manns breytist.
Ég er oftast úrvinda öll kvöld þó svo að ég hafi ekki gert mikið yfir daginn. Ég geri mest lítið en að fylgjast með umhverfinu, líkamshreyfingum, tungumálinu og hvernig fólk hagar sér, skrifa svo hjá mér punkta svo að kannski einn daginn muni ég fitta inn. Ég hef einnig haft mjög litla matarlyst, sem er ólíkt mér, ég gleymi oft að borða, ég hugsa orkan mín sé rekin áfram af forvitni og óöryggi.
Á föstudaginn flutti ég út af hostelinu og bý núna heima hjá Alaa tímabundið þar til ég mun finna annan stað. Við tókum tramminn frá miðbænum heim til hans, eitthvað sem ég hef áður gert í Túnis án nokkurra vandræða. Hins vegar hef ég aldrei ferðast um í tramminum á háanna tíma. Þvílík önnur eins hörmung. Ég get ímyndað mér að á mörgum stöðum í heiminum sé þetta líklegast verra. En fyrir Íslending með snertifóbíu á háu stigi var þetta ansi slæmt. Við hoppuðum inn í vagn sem ég hélt að við kæmumst líklega ekki inn í vegna hversu margir voru inn í honum. Við stóðum þar sem það voru engin sæti og vagninn byrjaði að keyra áfram. Á næsta stoppi ímyndaði ég mér að ástandið yrði bærilegra þar sem líklegast færi eitthvað af fólkinu út þar. Ég hafði rétt fyrir mér, það fóru út svona 10 manns, en við bættust kannski 30 manns inn í vagninn. Við hvert stopp fylltist vagninn meira og meira af fólki, að á tímabili fór ég að velta fyrir mér hvort að við værum stödd inn í einhverju óendanlegu svartholi. Svo standa allir þöglir og enginn segir neitt, auðvitað vegna þess að maður er í ónáttúrulegri nánd við ókunnugt fólk. Andfýlan í næsta manni lekur inn um nasirnar í bland við cumin svitalyktina af öðrum sem sefur líklegast í svarta leðurjakkanum sínum. Eftir u.þ.b. 10 mínútur af ferðinni var ég farin að öskra inn í mér og beið þess að ég myndi falla í yfirlið vegna súrefnisskorts (aðallega vegna fólksins sem gerði ekki annað en að hósta allan tíman, ég held að þau átti sig ekki á hversu miklu súrefni þau eru að stela frá okkur hinum með þessu hósti sínu). Ég komst óhullt út en velti því fyrir mér hvort að ég þyrfti að leggjast í sóttkví.
Á laugardaginn héldu Alaa og meðleigjendur hans (Hanna stelpa frá Þýskalandi og Ahmed frá Túnis) brunch þar sem talsvert mörgum var boðið. Hanna eldaði dýrindismáltíð ofan í alla sem við borðuðum upp á húsþaki. Andrúmsloftið var heldur betur afslappað og þægilegt. Samtölin voru svo mörg að nú á ég í erfiðleikum með að muna þau. Skemmtilegast var þá þegar ég lærði orðið zagg. Þegar ég heyri fólk tala saman reyni ég að grípa orð sem ég get borið fram og svo spyr ég hvað þau þýða. Ég rataði á orðið zagg sem þýðir fuglaskítur. Þetta er líklegast ónytsamlegasta orðið sem ég hef lært hingað til en hver veit nema í framtíðinni að það muni koma að góðum notum.
Túnisborg er full af skít. Því lengur sem ég er hérna, því betur tek ég eftir því. Ég held að þessi rómantíska glansmynd sem ég hef af Túnisborg sé smátt og smátt að falla. Nei, samt ekki svo dramatískt. Ég hugsaði með mér í kvöld hvort að sorphirðumennirnir séu kannski í verkfalli? Ég hef ekki heyrt um það, en borgin lítur hins vegar þannig út. Fjöll af rusli á hverju horni eða fjúkandi plast.
14. janúar eru þrjú ár liðin frá því að byltingin hófst. Hér verður því víst fagnað hófsamlega með fallegri skrúðgöngu, tónlist og dansi. Flestir sem ég tala við það þykja það sorglegt og kjánalegt. Sjáum til hvað mér mun finnast um það á þriðjudaginn.
Í gærkvöldi fórum við í afmæli hjá Ameríkana að nafni Sam sem er vinur Jawhers sem er vinur Alaa. Náðuð þið þessu? Gott. Mér leið heldur kjánalega að horfa á þennan hvíta Ameríkana tala lýtalausa arabísku og frönsku hægri og vinstri. Ég er ekki frá því að ég hafi upplifað vott af biturðleika gagnvart honum. En í rauninni er hann mjög yndislegur. Hann sagði mér frá því að hann og vinur hans væru að leita sér að meðleigjanda, svo í dag stökk ég á tækifærið og hafði samband við hann á Facebook. Við mæltum okkur mót til þess að skoða íbúðir. Kemur í ljós að hann er heldur betur magnaðar gaur. Hefur búið í Yemen, Marakkó og Egyptalandi og vinnur eins og er sem blaðamaður. Svo vonandi í vikunni finnum við íbúð sem við getum flutt inn í.
Ég rata ekkert hérna. Eftir fundinn með Sam þurfti ég að hringja í Hönnu til þess að biðja hana um að senda mér heimilisfangið í sms-i svo að ég gæti tekið leigubíl heim. Ég reyndi að stoppa nokkra leigubíla en flestir voru tregir við að keyra mig vegna þess að þeir vissu ekki nákvæmlega hvar heimilisfangið var. Á endanum útskýrði Sam fyrir leigubílstjóranum að hann ætti að stoppa við mosku nr. 2 í götunni. Ég settist því upp í bílinn. Þegar hann keyrði af stað kveiknaði á sjónvarpsskjá sem var staðsettur í hnakkanum á farþegasætinu. Eftir smá tíma áttaði ég mig á að ég hafði ekki verið að fylgjast með leiðinni og leigubílstjórinn segir við mig á frönsku "moska nr. 2?" og ég kinkaði kolli. Ég sá moskuna og bað hann um að stoppa. Í þessari götu sem þau búa er hraðbraut, lestarteinar og svo gangstétt. Á kvöldi til er gatan ekki vel lýst. Eftir að leigubíllinn keyrði í burtu áttaði ég mig á því að ég hafði farið út við mosku nr. 1 en ekki mosku nr. 2. Það fyrsta sem ég hugsaði var að byrja að hlaupa, moska nr. 2 var ekki svo langt frá. Ég byrjaði að skokka en heyrði útundan mér í einhverjum vera að keyra á vespu. Ég gaf í og hljóp hraðar. Ég sá útundan mér tvo unga stráka á vespunni, þeir byrjuðu að kalla á mig. Ég þóttist ekki heyra í þeim og hljóp ennþá hraðar. Þeir gáfu enn hraðar í og héldu áfram að kalla á mig. Ég hafði ekki hugmynd hvað þeir voru að segja en á þessum tímapunkti var ég orðin verulega hrædd. Ég byrjaði að hlaupa eins hratt og ég gat og fann að það var bíll á hraðbrautinni sem byrjaði að hægja á sér. Ég þorði ekki að líta inn í bílinn og hélt áfram að hlaupa. Bíllinn flautaði og ég leit við og þá var þetta sami leigubílstjóri og hafði hleypt mér út úr bílnum fyrir stuttu. Ég hoppaði inn í bílinn, leigubílstjórinn horfði á mig og spurði hvort að það væri í lagi með mig. Ég leit á hann til að ná andanum en fór svo að hágráta. Þvílíkt óöryggishræ sem ég varð. Strákarnir á vespunni keyrðu að leigubílnum, kom í ljós að þeir höfðu áhyggjur af mér og voru að reyna að spyrja hvort að það væri í lagi með mig, enda óvanalegt að sjá unga stúlku hlaupa við hraðbraut. Þessi leigubílstjóri var svo mikill engill og keyrði mig upp að dyrum, gaf mér vatn að drekka og vildi ekki að ég borgaði fyrir farið. Ég býst við að það séu til fleiri í heiminum sem vilja vel heldur en illt.
Á morgun hefst svo heimildarvinnan. Ég læt ykkur vita hvernig það gengur.
Þar til næst
Boussa boussa
- Nadia
No comments:
Post a Comment