Wednesday, January 8, 2014

Fyrsti dagurinn

Ég lenti í Túnis í gærmorgun. Saber listamaðurinn sem ég mun vinna með og Alaa frændi hans komu og sóttu mig á flugvöllinn. Ég var reyndar stoppuð í vegabréfseftirlitinu eins og venjulega, vegna þess að þeim þykir það grunsamlegt að ég líti út eins og Túnisbúi en er með íslenskt vegabréf. Þeir báðu mig um að sýna þeim flugmiðana mína þar sem ég hafði ekki flogið beint frá Íslandi til Túnis. Auðvitað var ég ekki með neina flugmiða og auðvitað voru þeir bara að mestu leyti að bulla, en á endanum hleyptu þeir mér í gegn.

Ég gisti núna eins og er á hosteli, sem er ekki svo dýrt í nokkra daga en mun vera dýrt ef ég finn mér ekki stað bráðlega. Strákarnir þekkja franska stúlku sem á íbúð hérna í borginni og gæti ég leigt herbergi af henni, ég mun skoða það í vikunni.

Ég veit að margir ættingjar og vinir hafa áhyggjur að ég sé hérna í þessu landi, en ég vil að þið vitið að fólkið sem er í kringum mig er mjög gott. Eins og alls staðar annars staðar í heiminum er fólk mismunandi. Samfélagið hér er töluvert íhaldssamara en á Íslandi en hér er mikið af ungu, vinstrisinnuðu og vel upplýstu fólki.

Saber eldaði fyrir mig Ojja í kvöldmat sem er einn af túnískum þjóðarréttunum. Eftir kvöldmatinn kíktum við á bar sem er staðsettur á 10. hæð á hóteli hér í miðbænum. Barinn heitir Jamaica og er spiluð reggae tónlist þar, mikið af ungu fólki kemur þangað. Mér þykir hann dálítið fyndinn þar sem hann er staðsettur á rosalega fínu hóteli með þjónum klædda í smóking en blastar síðan reggaetónlist í botn. Ég gat séð yfir alla Túnisborgina þar, og þá fyrst rann upp fyrir mér að ég væri loksins komin hingað, hefði ég verið ein þá hefði ég líklegast fellt tár en ég var ekki alveg tilbúin að vera svo væmin fyrir framan þá við fyrstu kynni. Við fengum okkur tvo bjóra á barnum en ekki meir, þar sem áfengi hérna á börum er heldur dýrt fyrir unga námsmenn, það er helmingi dýrara að kaupa bjór hér á bar heldur en á Spáni til dæmis.

Hér eins og á Spáni kyssa allir hvorn annan á kinnina þegar þeir heilsast. Mér finnst það nú ekki mikið mál en í gær þótti mér þetta heldur óþægilegt þegar Saber og Alaa rákust á vini sem ég hafði aldrei hitt áður og þurfti að vera að kyssa alla á kinnina hægri og vinstri.

Við fórum svo aftur heim til Sabers þar sem fleira fólk kom í heimsókn. Á leiðinni þangað tók ég eftir að það var ungur strákur á götunni að selja egg, ég spurði Alaa hvað þetta væri og hann sagði mér að prufa. Ég hef aldrei séð þetta áður, þetta er sem sagt mjög linsoðið egg og brýtur eggjasölumaðurinn skurnina efst af, kryddar eggið með salti og cumen og svo tekur maður þetta eins og skot. Þetta var ekki vont en vægast sagt mjög skrítið. Við hliðina á okkur var ungur strákur sem tók í það minnsta fjögur eggjaskot og sagði Alaa mér að margir fá sér þetta svo að þeir getir drukkið meira áfengi, þetta þenur út magann og kemur í veg fyrir að þú ælir. Þegar við komum svo inn á stigaganginn heima hjá Saber sagði Alaa mér að loka hurðinni hljóðlega, ég reyndi að passa mig en skellti óvart hurðinni, það var niðamyrkur og á ganginum og heyrði ég í einhverjum manni að vera tala við Alaa. Þegar ég labbaði upp stigann sá ég mann liggja á ganginum með teppi. Ástæðan fyrir því að við þurftum að ganga um hljóðlega var vegna þess að húsvörðurinn var sofandi á stigaganginum. Það er vinnan hans.

Flestir sem að ég hef hitt tala mjög góða ensku. Saber skilur ensku mjög vel en á dálítið erfitt með að tala hana, þannig að samskipti okkar eru mjög fyndin, þegar hann skilur ekki hvað ég segi reyni ég á mjög bjagaðri frönsku að tjá mig og eins ef að hann finnur ekki réttu orðin talar hann við mig á frönsku. Við sátum öll fram eftir kvöldi að spjalla saman. Það eru allir mjög indælir og almennilegir við mig og það fólk sem ég hef hitt hafa mjög sterkar pólítískar skoðanir og einkennast flest samtölin af því. Saber tók mig í smá tungumálakennslu. Hann kenndi mér svona basic orð og setningar sem er ekki flókið en framburðurinn er hins vegar mjög erfiður fyrir mig. Ef ykkur finnst Danir tala eins og þeir séu með kartöflu í hálsinum, prufið þá túnísku. Eftir margar tilraunir að reyna bera fram einn bókstaf greip hann um hálsinn á mér og sagði "prufaðu núna" og þá ældi ég þessu hljóði út úr mér. Hlakka til þegar ég næ þessu almennilegu, svo ég þurfi ekki að kúgast í hvert skipti sem ég reyni að tala.

Svona fór fyrsti dagurinn minn. Í dag er ég víst að fara með Saber í tökur í stuttmynd sem hann er að leika í og svo munum við fara í bíó í kvöld á túníska bíómynd.

Þangað til næst - Besslema (Bless)

 - Nadia


1 comment:

  1. Þetta er algjört ævintýri! Gaman að fylgjast með þér:)
    Bk,
    Erla

    ReplyDelete