Tuesday, February 4, 2014

Leitin að ömmu

Ég hef ákveðið eftir mikla umhugsun að heimsækja ömmu mína sem býr hérna í Túnis. Þetta er stór og mikilvæg ákvörðun sem ég þurfti að taka. Sérstaklega í ljósi þess að ég hef aldrei hitt ömmu mína áður eða talað við hana. Saga föðurfjölskyldu minnar er mjög flókin og að mörgu leyti dularfull fyrir mér. Margt af því sem ég hef heyrt um föðurfjölskyldu mína hefur ekki beint verið hvetjandi fyrir mig til þess að hafa samband við þau.

Á sunnudaginn ákváðu ég og Alaa að heimsækja ömmu mína. Pabbi hafði sent mér heimilisfangið hennar en hverfið sem hún býr í er mjög stórt og kaotískt og því erfitt að finna út hvar hún býr nákvæmlega. Við settumst upp í leigubíl og sögðum leigubílstjóranum hvert förinni var heitið. Þegar við vorum komin að hverfinu spyr leigubílstjórinn hvert inn í hverfið við ætluðum að fara, Alaa sýnir honum heitið á götunni og í sömu andrá stoppar leigubílstjórinn leigubílinn og segir að hann ætli ekki að fara með okkur að þessum hluta hverfisins, hann segir að hann myndi vera að leggja sjálfan sig og okkur sérstaklega í hættu þar sem klukkan var orðin sex og byrjað að dimma. Svo við snérum við og ákváðum að fara snemma daginn eftir í fylgd með vini Alaa sem þekkir hverfið.

Í gær gerðum við aðra tilraun. Við fórum mun fyrr af stað og tókum louage (sem er leigubíll sem tekur 8 - 10 manns í einu). Við fórum út í þeim hluta hverfisins sem við töldum væri líklegt að hún byggi í. Við löbbuðum að sjoppu og spurðum til vegar, strákarnir í sjoppunni reyndu að hjálpa okkur en voru ekki vissir hvar þessi gata væri. Hverfunum er skipt í fjórðunga og er hver fjórðungur merktur með númeri, t.d. eins og 10872 og því eins og gefur að skilja getur verið flókið að finna rétta fjórðung. Við löbbuðum fram og til baka og hring eftir hring, spyrjandi hvern einasta vegfarenda hvort að þau könnuðust við ömmu mína eða númerið á hennar hverfisfjórðung (sem ég mun nú framvegis kalla kvarter).  Hver einasta eldri kona sem gekk framhjá mér skoðaði ég gaumgæfulega til að sjá hvort að hún líktist mér á einhvern hátt. Við rákumst á mjög indæla eldri konu sem benti okkur á að fara á lögreglustöðina, þar gætu þeir gefið okkur ítarlegri upplýsingar á staðsetningunni á götunni. Hún fylgdi okkur að lögreglustöðinni og spurði á meðan hvers vegna við værum að leita að þessari konu, Alaa útskýrði fyrir henni sögu mína, konan tók utan um mig og bað Guð að blessa mig svo óskaði hún mér velgengis í leit að ömmu minni. Á þessum tímapunkti var ég orðin stressuð, ég hafði ekki verið stressuð áður en við lögðum af stað en það rann upp fyrir mér að ég væri í alvörunni að fara að hitta ömmu mína sem ég hafði ekki einu sinni séð áður. Lögreglan gaf okkur heitið á götunni og sagði að það ætti ekki að vera langt frá. Sagan endurtók sig aftur og löbbuðum við fram og tilbaka hring eftir hring spyrjandi í sjoppum og vegfarendur um götuna þar til við rákumst loks á stelpu sem að benti okkur á réttu götuna. Við gengum upp eftir götunni að leita að húsi númer 33. Gatan náði bara að húsi 20. Hér var ég algjörlega búin að gefast upp á að við myndum finna ömmu mína. Við gengum að næstu götu og Alaa fór í sjoppu og spurði afgreiðslumanninn hvort að hann kannaðist við nafn ömmu minnar. Maðurinn sagðist vita um eina konu sem byggi í þessari götu sem héti þessu sama nafni, hann sagðist ekki vita nákvæmlega hvar hún byggi en benti á hús neðar í götunni. Við gengum neðar og fundum númerið 33. Glugginn að húsinu var opinn og því hægt að sjá inn í íbúðina. Fyrsta sem ég tók eftir var að það voru tveir kettir inn í íbúðinni. Þá vissi ég að við værum á réttum stað, því pabbi hafði sagt mér að amma mín ætti marga ketti. Við bönkuðum á hurðina en enginn svaraði. Ég leit aftur inn í íbúðina til þess að skoða hana betur. Það var bekkur með dýnu og teppi yfir, teppinu hafði verið flett frá og gat ég því ímyndað mér að amma mín hafi verið nývöknuð og farið fram úr rúminu og beint út. Fyrir framan rúmið var kassi og plata yfir sem hún notar greinilega sem sófaborð. Á plötunni var pottur með brenndu cous cousi og hafði hún greinilega borðað lítinn hluta úr pottinum, mygluð sítróna, aska og brunablettur eftir að hafa drepið í sígarettu á borðinu. Á veggnum var lítil hvít klukka sem maður myndi venjulega sjá í barnaherbergi sem var stopp, kitsch málverk af ávöxtum og í hornunum voru stórir köngulóarvefir. Á gólfinu var gaseldhúshella. Svo var einn skápur. Því lengur sem ég horfði inn um íbúðina því skýrara sá ég fyrir mér hvernig líf hennar er. Við spurðum nágrannana hvort að þeir vissu hvar hún væri en þeir sögðu að hún væri alltaf heima en færi stundum út í göngutúra. Við ákváðum að bíða eftir henni. Meðan ég beið velti ég því fyrir mér hvort að hún vissi að ég væri til og hvort að hún viti hvað ég heiti. Kannski veit hún það og hefur beðið eftir þessum degi í áraraðir, kannski er henni alveg sama. Mér var samt illt í hjartanu. Ég hef alltaf vitað að hún væri ekki rík, en nú sá ég hversu eymdarlegt líf hennar hlýtur að vera. Við biðum fyrir utan húsið hennar í u.þ.b. 40 mínútur, við þurftum að fara vegna þess að Alaa þurfti að vera mættur á fund. Þegar við löbbuðum svo aftur tilbaka til þess að taka louage var ég í örvæntingu minni farin að leita henni allt um kring. Við sáum hana ekki og fórum upp í bílinn. Þegar bíllinn keyrði af stað fann ég fyrir óbærilegri sorg og sektarkennd. Ég horfði á eftir hverfinu meðan tárin streymdu niður.

Ég mun reyna aftur í vikunni að hafa uppi á henni og mun ég skrifa um það hér ef ég næ að hitta hana.

 - Nadia


No comments:

Post a Comment