Friday, February 7, 2014

O Grandmother Where Art Thou?

Þegar ég var 14 ára þá bjó systir mín í Frakklandi. Hún sendi mér í 14 ára afmælisgjöf geisladisk með Rachid Taha. Ég hafði aldrei hlustað á hann áður, tónlistin sem ég hlustaði á þessum tíma var eingöngu Hip Hop eða R&B, ekkert annað kom til greina. Rachid Taha er tónlistarmaður frá Alsír sem blandar saman mismunandi nýstárlegum tónlistarstefnum við hefðbundna Rai tónlist sem kemur frá Alsír. Ég man að ég hugsaði þegar ég leit á coverið á geisladisknum að systir mín gerði sér ekki grein fyrir því að ég væri hætt að hlusta á heimstónlist, ég var orðin of kúl fyrir þetta. Ég ákvað samt að prufa að hlusta á diskinn. Ég setti geisladiskinn í spilarann og ýtti á play. Ég man að ég sat á rúminu mínu þegar fyrsta lagið á disknum byrjaði, ég var búin að hlusta á lagið í u.þ.b. eina mínútu þegar ég byrjaði allt í einu að gráta. Ég upplifði einhverja óútskýranlegar tilfinningar í bland við sorg, söknuð og gleði þegar ég hlustaði á lagið.

Í gær gerði ég þriðju tilraun til þess að hitta ömmu mína. Ég vissi að í þetta skipti myndi það takast að hitta hana. Við fórum beint úr leigubílnum og löbbuðum að götunni hennar. Ég sá þrjár konur standa í götunni. Ég gat ekki séð nógu vel hvort að þær stæðu fyrir framan hús ömmu minnar eða lengra frá. Ég byrjaði að fá fiðring í magann og langaði helst að snúa við. Hvað á ég eiginlega að segja við hana? Kannski á hún bara eftir að biðja mig um pening. Ætli að hún fari að gráta? Eða ætli hún verði reið út í mig fyrir að hafa ekki heimsótt sig fyrr? Hugsaði ég með mér. Við nálguðumst konurnar og gat ég séð að þær stóðu fyrir utan hús ömmu minnar, ég vissi þá að hún hlyti að vera ein af þeim. Alaa kynnti sig fyrir þeim og spurði hvort að þær þekktu ömmu mína. Ég horfði á konurnar til skiptis. Ein þeirra var of ung til þess að vera amma mín, önnur líktist ekkert mér eða pabba mínum og sú þriðja var ég ekki viss um. Ég horfði betur á hana og sá glitta í augu pabba míns og þá vissi ég að þetta væri hún. Alaa sagði henni að ég væri barnabarnið hennar frá Íslandi. Konurnar tvær brostu til mín og byrjuðu að tala við mig meðan amma mín sat kyrr í stólnum sínum ráðvillt. Alaa tjáði konunum það að ég talaði ekki arabísku. Svo heyri ég ömmu mína segja hver? hvað? Alaa útskýrir fyrir henni aftur hver ég er og hún segir Nadia hver? Alaa segir nafn föður míns og þá fyrst kveikti hún á perunni. Hún sló í lærið á sér og sagði NADIA. Ég gekk til hennar og faðmaði hana. Hún spyr um bróður minn (bróðir minn er 3 ára) og ég sagði að hann væri á Íslandi. Hún segir við mig þú kemur núna þegar ég er orðin gömul og ljót, ég er mjög veik. Alaa bendir á aðra konuna sem var yngst af þeim þremur og segir Nadia þetta er systir pabba þíns. Ég labba að henni og faðma hana. Hún segir að þær voru á leiðinni heim til sín í hádegismat og bauð okkur með. Við löbbuðum af stað til þess að finna leigubíl, meðan við löbbuðum horfði ég á ömmu mína. Hún var klædd í sítt pils, peysu og með slæðu um höfuðið. Hún kjagaði meðan hún gekk og var þung á svipinn. Hvar er bróðir þinn? Spurði hún mig aftur. Ég sagði henni að hann væri á Íslandi og bætti við að hann væri mjög líkur henni. Hún sagði já hann er mjög líkur pabba þínum, hann er með augun hans og þessar þykku hendur. Ég kinkaði kolli. Ég er mjög veik sagði hún við mig, augun mín eru farin að bila og svo er ég með sykursýki. Við stoppuðum til þess að finna leigubíl í götunni. Ég stóðst ekki mátið og faðmaði ömmu aftur, hún var eitthvað svo vesæl, ég hugsaði kannski að hún hafi gott af því að fá faðmlag. Hún hélt mér fast að sér og sagði nafnið mitt. Við slepptum takinu og stóðum í þögn við umferðargötu. Ég leit á hana aftur og sá ég að hún felldi tvö tár og muldraði eitthvað með sjálfri sér.

Við fórum með leigubílnum í annað hverfi heim til frænku minnar. Við komum inn í mjög litla íbúð. Hún sagði mér að hún býr þarna með fyrrverandi eiginmanni sínum, dóttur sinni, syni sínum, konunni hans og barni. Ég sá strax að frænka mín er einnig mjög fátæk. Hún spurði okkur í sífellu hvort að við værum svöng og hvað við vildum. Ég þakkaði henni fyrir en sagðist ekki vera svöng. Hún spurði mig hvort ég vildi kaffi eða djús, ég svaraði djús og spurði hún svo Alaa hvernig sígarettur hann vildi (ég get auðvitað ekki reykt fyrir framan þær). Hún sendi tengdadóttur sína út í búð til að kaupa djús, sígarettur og fleira. Mér þótti þetta heldur óþægilegt þar sem ég vissi að þau eiga mjög lítinn pening. En svona virkar gestrisnin hérna og ef maður þiggur ekki þá er maður dónalegur. Frænka mín og Alaa spjalla saman. Meðan situr amma mín og reykir. Hún virðist ekki alveg vera á staðnum eins og hún sé mjög djúpt hugsi. Frænka mín segir Alaa að amma mín er með Alzheimer. Hún bætir við að hún hafi oft reynt að sannfæra hana um að búa hjá sér en amma mín neitar, hún vill búa ein með köttunum sínum. Frænka mín segir að hún gerir víst skandala af og til en það er sjúkdómurinn sem spilar þar inn í. Ég spyr ömmu mína hvað hún er gömul, hún glottir til mín og segir síðan að hún er 67 ára. Þú hefðir átt að sjá mig þegar ég var ung, sagði hún, ég var stórglæsileg kona sem gekk í háhæluðum skóm. Alaa og frænka mín héldu áfram að spjalla, ég sat þögul og horfði á ömmu mína og reiknaði í hausnum út frá aldrinum hennar hvað hún hafi verið gömul þegar hún átti pabba minn. Hún var einungis 14 ára. Ég spurði frænku mína hvaðan fjölskyldan okkar er upprunalega frá í Túnis, hún svaraði mér við erum frá Alsír. Ég vissi að afi minn var frá Alsír en ég vissi ekki að amma mín væri það líka. Frænka mín sagði mér að amma mín fæddist í Túnis en foreldrar hennar voru frá Alsír. Á þessu augnabliki varð þetta allt eiginlega of mikið fyrir mig, ég fann hvernig það fór að myndast kökkur í hálsinum. Ekkert var rökrétt lengur. Ég leit á Alaa og sagði við hann að ég vildi ekki vera þarna mikið lengur. Það var allt orðið svo óþægilegt og ég vissi ekki lengur hverju ég ætti að spyrja að. Ég horfði niður í djúsglasið mitt og leit svo upp á frænku mína. Hún sat og grét, ég veit ekki afhverju. Ég stóð upp og faðmaði hana og svo grétum við saman. Hún sagði við mig að ef þú bara talaðir arabísku þá gæti ég sagt þér margar sögur, margar sögur sem þú þarft að heyra. Eftir smá tíma sagði ég þeim að ég þyrfti að fara, amma mín stóð upp og rétti mér 10 dinar. Ég reyndi að segja nei við hana en hún krafðist að ég tæki við peningnum. Ég grét enn meira, hvernig getur það verið að fólk sem á ekki neitt sé að gefa mér stóran hluta af þeim pening sem það á. Ég kyssti alla bless og þá rétti frænka mín mér í viðbót 10 dinar. Ég þakkaði þeim fyrir og fór. Ég kom heim og lagðist upp í rúm og rotaðist. Ég var algjörlega búin á því.

Lagið sem ég talaði um í byrjun heitir Ya Rayah. Hér er þýðingin á textanum:

Oh Emigrant
Oh where are you going?
Eventually you must come back
How many ignorant people have regretted this
Before you and me
How many overpopulated countries and empty lands have you seen?
How much time have you wasted?
How much have you yet to lose?
Oh emigrant in the country of others
Do you even know what's going on?
Destiny and time follow their course but you ignore it
Why is your heart so sad?
And why are you staying there miserable?
Hardship will end and you no longer learn or build anything
The days don't last, just as your youth and mine didn't
Oh poor fellow who missed his chance just as I missed mine
Oh traveler, I give you a piece of advice to follow right away
See what is in your interest before you sell or buy
Oh sleeper, your news reached me
And what happened to you happened to me
Thus, the heart returns to its creator, the Highest (God)


1 comment: