Friday, February 21, 2014

Menningarsjokk

Samkvæmt internetinu er ég að upplifa menningarsjokk. Ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en ég fór að lesa um algeng einkenni menningarsjokks. Ég hélt að menningarsjokk væri sjokk. Svo virðist ekki vera, það er meira svona eins og þjóðerniskennd sem læðist upp að þér.

Eina sem ég hef hugsað um síðustu vikur er hvað Ísland er æðislegt. Flestar setningar hjá mér byrja á "in Iceland...". Ég fæ stundum ógeð á að hlusta á sjálfa mig, hversu mikið ég tala um Ísland og kosti þess. Ég á erfitt með að muna yfir hverju ég var að kvarta meðan ég bjó á Íslandi.

Það er allt svo mikið vesen hérna. Og þegar ég kvarta yfir því, líður mér eins og ofdekruðum ungling sem hefur aldrei þurft að hafa fyrir neinu í lífinu.

Ég fór á pósthúsið um daginn. Ég bað um umslag. Það var ekki til umslag. Ég hreytti út úr mér "but it's a fucking post office!" og strunsaði út í bræði minni.

Málið er að það er allt svo handahófskennt hérna. Það er ekkert nema heppni ef að eitthvað gengur upp.

Ég skráði mig í námskeið í túnískri arabísku í málaskóla sem hefur gott orð á sér á internetinu. Ég mætti fyrsta daginn, konan á skrifstofunni tjáir mér það að það sé ekki tími þann dag vegna starfsmannafundar. Ég hugsaði með mér hvers vegna gat hún ekki sagt mér það bara daginn áður þegar ég mætti til þess að skrá mig. Hún segir mér að koma daginn eftir. Ég mætti daginn eftir og hún tjáir mér það að það sé ekki tími vegna starfsmannafundar, ég ætti að koma daginn eftir. Ég varð orðin svolítið pirruð en ákvað að láta þetta ekki á mig fá. Loks þriðja daginn mætti ég og það var tími. Konan á skrifstofunni hafði sagt mér að námskeiðið væri fyrir byrjendur og að námskeiðið hafi byrjað þessa sömu viku, svo ég hafði bara misst úr einn tíma. Tíminn byrjar og kennarinn byrjar að tala. Ég skil ekki neitt og sit örugg um að enginn skilji neitt. Nemendurnir byrja að tala, á reiprennandi túnísku. Ég sit ein með opin munninn og líður eins og ég gæti verið pínulítið eftir á. Ég segi kennaranum að ég skilji ekki neitt. Hún segir mér að það sé eðlilegt. Hún byrjar að skrifa á töfluna orð, ég hugsa með mér ég get alla vega glósað orðin sem að hún skrifar. Í túnísku þá nota þau bæði arabískt letur og latneskt letur, í minni eigin lógík hafði ég ímyndað mér að í tíma fyrir byrjendur væri notað latneskt letur. Nei, kennarinn notaði arabískt letur, svo það var ómögulegt fyrir mig að glósa orðin sem hún skrifaði á töfluna, öllum öðrum tókst samt að glósa á einhvern furðulegan hátt. Kennarinn fór aðeins út úr tímanum, ég spurði strákinn við hliðina á mér hvort að ég væri ekki örugglega á réttum stað, hann segir mér það að þetta sé tími fyrir byrjendur en meirihluti nemendanna hafi lært klassíska arabísku áður í nokkur ár og þess vegna mun auðveldara fyrir þau að læra túníska arabísku. Kennarinn labbaði aftur inn í stofuna og ég segi við hana að ég skilji ekki neitt og að ég haldi að ég sé ekki á réttum stað auk þess skilji ég ekki arabískt letur, hún segir mér að skrifa bara orðin eins og ég heyri þau. Ég fann hvernig reykurinn úr eyrunum á mér fyllti út kennslustofuna. Ég gekk út eftir klukkutíma og fór á skrifstofuna til þess að kvarta. Ég segi við konuna á skrifstofunni að ég hafi ekkert að gera í þessum tíma og þetta sé ekki ásættanleg kennsluaðferð fyrir byrjendur, hún segir mér að þetta sé eina byrjendanámskeiðið. Ég gerði mér grein fyrir að annað hvort þurfti ég að labba út af skrifstofunni eða ég myndi sjá eftir því að hafa löðrungað konuna með kennslubókinni minni. Ég gekk út.

Nokkrum dögum seinna mætti ég aftur til þess að fá endurgreitt en konan tjáði mér það að það væri ekki hægt. Ég hafði skrifað undir samning þar sem stendur að ekki sé hægt að fá endurgreiðslu. Ég þakkaði henni fyrir kurteisislega og ætlaði að labba út af skrifstofunni, hún segir við mig þú hefðir átt að koma til mín strax og láta mig vita að þú værir ekki ánægð, við hefðum reynt að hjálpa þér. Ég brosti og labbaði út meðan ég ímyndaði mér hana vera að brenna í helvíti.

Ég gæti skrifað heila bók um dagleg svekkelsi og pirring á óáreiðanleika túnísks samfélags. Ég vorkenni sjálfri mér svo mikið og upplifi mig eina og misskilda. Svo geng ég um götur Túnisborgar þar sem mér líður eins og allir stari á mig með illkvittnum augum vegna þess að ég fór í aðeins of þröngan bol þennan morgun eða klæddi mig í litríkar buxur.

Þetta hefur orðið til þess að ég loka mig að mestu leyti af. Ég nenni ekki lengur að umgangast fólk og ég nenni ekki lengur að skilja neitt. Ég fæ kvíða við að þurfa að fara ein út í búð bara við tilhugsunina um hvernig fólk starir á mig og ef einhver skildi byrja að tala við mig og ég gæti ekki tjáð mig.

Ég hef líka orðið fyrir vonbrigðum með sjálfa mig. Ég skamma sjálfa mig daglega fyrir að vera ekki nógu frökk og kærulaus og láta vaða. Ég er ekki þessi Íslendingur sem fer í ókunnugt land og vill ekki upplifa menninguna. Ég er OPIN, ég SKIL aðra menningarheima. En það virðist ekki skipta máli.

Ég er nú vön því að ferðast og hafði ekki áhyggjur að ég myndi upplifa mikið menningarsjokk. Ég hef samt áttað mig á því að það er allt annað að vera í einhverju framandi landi sem túristi í nokkrar vikur, í nokkrar vikur getur maður umborið einhvern menningarmismun, fólk kemur líka vel fram við mann ef það veit að maður er túristi, allt er svo frábært. Hér er ég innfædd, ég lít út fyrir að vera innfædd og fæ því sama viðmót og innfæddir, nema ég get ekki varið mig, tjáð mig eða leitað réttar míns. Eins og allir Túnisbúar kannski. Og það gerir mig gjörsamlega úrvinda. Bara það að þurfa að taka metróinn í 10 mínútur tekur úr mér allra orku. Að þurfa að standa í þröngu rýmu með ókunnugu fólki í algjörri þögn meðan það starir á mann er algjör orkusuga.

Grát, grát. Já, greyið ég.

Ég hef nú samt ekki miklar áhyggjur af sjálfri mér. Ég geri mér grein fyrir að þetta er einungis hluti af því að vera útlendingur í nýju landi. Það tekur tíma að aðlagast og sætta sig við að maður hefur ekki sömu forréttindi hér og í sínu heimalandi. Ég er mjög þolinmóð og mjög þrautseig svo ég veit að ég mun halda þetta út. Ég veit að þessi stutti tími hér í Túnis mun gefa mér betri skilning á sjálfri mér og betra innsýn í það hvernig það er að vera innflytjandi. Allir þessu neikvæðu hlutir sem að ég upplifi verða jákvæðir í lengri tíma litið.

 - Nadia

2 comments:

  1. Þetta var yndisleg færsla. Takk fyrir mig.

    ReplyDelete
  2. cracked.com/blog/the-5-weirdest-side-effects-moving-to-new-country/


    Klassískt menningarsjokk.

    ReplyDelete